Vigdís Häsler hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, en Sigurður Eyþórsson hætti sem framkvæmdastjóri um síðustu áramót eftir 13 ára starf fyrir samtökin. Vigdís, sem er lögfræðingur, hefur störf nú í byrjun febrúar og tekur við af Oddnýju Steinu Valsdóttur, varaformanni Bændasamtakanna, sem hefur gegnt stöðunni í janúar.
Frá þessu er greint á vef Bændasamtakanna. Vigdís var starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Alþingi þar sem hún kom að undirbúningi fyrir þingmenn við gerð þingmála. Þá var Vigdís aðstoðarmaður samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2017 og starfaði hún einnig sem lögmaður hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem hún sinnti undirbúningi og gerð umsagna um lagafrumvörp og önnur þingmál og tók þátt í samskiptum við Alþingi. Einnig annaðist hún lögfræðilega ráðgjöf og upplýsingagjöf til sveitarstjórnarmanna. Auk þess sem hún starfaði í nokkur ár sem lögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka.
Hún lauk BA-prófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri 2006, meistaraprófi 2008 og ári seinna hlaut hún málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Árið 2013 lauk hún LLM-prófi frá University of Sussex í Bretlandi. Vigdís hefur setið í stjórnum félagasamtaka og í kjörstjórn Garðabæjar fyrir kosningar til alþingis- og sveitarstjórnar og forsetakosningar.