Vilborg nýr oddviti Miðflokks í Reykjavík norður: Ólafur dró sig í hlé vegna pattstöðu

Framboðslisti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður var samþykktur á félagsfundi í kvöld með 77% atkvæða fundargesta.

Nýr oddviti flokksins í kjördæminu er Vilborg Þóranna Kristjánsdóttir, lögfræðingur og sáttamiðlari, en Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögfræðingur og fv. borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, var oddviti í síðustu alþingiskosningum en náði ekki kjöri.

Á fundinum var lesin upp svofelld yfirlýsing Ólafs Ísleifssonar alþingismanns Miðflokksins í Reykjavík norður, sem gekk til liðs við flokkinn á kjörtimabilinu eftir að honum og Karli Gauta Hjaltasyni var vísað úr Flokki fólksins:

„Til að leysa þá pattstöðu sem upp er komin við uppstillingu á framboðslista Miðflokksins í Reykjavík norður hefi ég ákveðið að sækjast ekki eftir sæti á framboðslista flokkins í kjördæminu fyrir komandi alþingiskosningar. Þar sem ég verð á ferðalagi alla næstu viku hefi ég ekki tök á að sækja boðaðan fund en bið fyrir bestu kveðjur og árnaðaróskir til fundarmanna.“

Í öðru sæti listans verður Tómas Ellert Tómasson, verkfræðingur, í þriðja sæti Erna Valsdóttir, fasteignasali, fjórða sæti Þórarinn Jóhann Kristjánsson, tölvunarfræðingur og kennari, í fimmta sæti Ásta Karen Ágústsdóttir, laganemi og dómritari og sjötta sæti Sólveig Bjarney Daníelsdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðstoðardeildarstjóri.