Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum! Hægt er að lesa fyrri pistla hér að neðan.
- Eins og spáð var fyrir um á þessum vettvangi, eru margir að vakna upp við þann vonda draum að Framsóknarflokkurinn bæti verulega við fylgi sitt og sé sumpartinn að stela senunni í kosningabaráttunni. Brynjar Níelsson, sem samkvæmt könnunum er illu heilli á leið af þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, vandaði framsókn ekki kveðjurnar í gær og í dag sagði rithöfundurinn Illugi Jökulsson þetta: „Nú gengur maður undir manns hönd að lýsa því yfir hvað það sé „sniðugt“ að Framsóknarflokkurinn auglýsi sig undir slagorðinu: „Eigum við ekki bara að kjósa Framsókn?“ — Þið fyrirgefið, en mér finnst þetta „slagorð“ fyrirlitlegt. Að stjórnmálaflokkur, dyggur þjónn og allragagn auðstéttanna í landinu, sníki nú atkvæði út á að vera laus við „öfgar“ eins og þær að vilja að fátækt fólk njóti mannsæmandi kjara, að sægreifar þurfi að borga sanngjarnt verð fyrir afnot af auðlind okkar allra, að staðið skuli við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu — já, ég segi og skrifa: Þetta finnst mér fyrirlitlegt.“ Annars allir hressir bara.
- Karen Kjartansdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, er á nokkuð málefnalegri nótum í færslu á fésbókinni þar sem hún spáir því að Vinstri græn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur, hljóti að sækja í sig veðrið á lokametrunum. „Sigurður Ingi og Framsóknarfólk getur glaðst. Framsókn gæti jafnvel átt enn meira inni því flokkurinn hefur oft mælst lægri í könnunum en það sem á endanum skilar sér í kjörkassa, þá dæsir nefnilega óákveðna fólkið og segir „er ekki best að kjósa Framsókn,“ eins og auglýsarnar þeirra snjöllu segja. VG mun fá fleiri atkvæði en mælast í könnunum því flest reiða fólkið sem segist nú ætla kjósa Flokk fólksins, Sósíalista og allt það mun á kjördag velja VG þrátt fyrir yfirlýsingarnar. Sósíalistar og Sjálfstæðisfólk má alveg fara stressa sig á niðurstöðunum sem og Píratar því reynslan segir okkur að kjósendur þeirra síðastnefndu skila sér ekki vel á kjörstað. Viðreisnarfólk og Samfylkingarfólk má svo vel við una.“ Það var og.
- Hvar eru Píratar í þessari kosningabaráttu? Von er að spurt sé. Svarið liggur kannski í því að sjálfur stofnandi flokksins er orðinn frambjóðandi hjá Sósíalistaflokknum.
- Talandi um Sósíalistaflokkinn. Þeir fara mikinn og forystumaðurinn Gunnar Smári Egilsson þjáist ekki af minnimáttarkennd fremur en fyrri daginn. Hann sendi frá sér „áríðandi tilkynningu“ í dag um að flokkurinn stefni á að fara í ríkisstjórn. „Áríðandi tilkynning: „Stórir draumar og háleit markmið sameina fólk. Sjálfsritskoðun þeirra sem fyrir fram gefast upp fyrir afli hinna ríku sundrar. Þetta höfum við séð í verkalýðsbaráttunni þar sem róttækur baráttuandi sósíalista náði að endurvekja hreyfingu sem hafði beygt sig undir vald hinna ríku. Það sama þurfum við að gera á lýðræðisvettvangi Alþingis og sveitastjórna. Sósíalistar þurfa að leggja fram kröfur sem vekja, koma með eld sem logar og bera óhræddir fram drauma kynslóðanna um réttlæti og jöfnuð.“
- Nú verður spennandi að sjá hvernig aðrir flokkar á vinstri kantinum bregðast við hinum logandi eldum og draumum kynsl´óðanna; kröfum um uppskiptingu einkafyrirtækja á borð við Samherja, að leysa upp Hæstarétt og fleira í þeim dúr. Athyglisverðir tímar.
- Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er aftur farinn að sjást í auglýsingum flokksins, enda kannanir aðeins að vænkast. Logi er hinn vænsti maður, en er hann forsætisráðherraefni flokksins?
- Ný könnun MMR og Morgunblaðsins sýnir að Miðflokkurinn fengi 2 þingmenn í Suðurkjördæmi. Þar með kæmist Erna Bjarnadóttir að, en hún er einstök baráttukona og mikill fengur fyrir flokkinn. Kannski verður Suðurkjördæmi sterkasta vígi Miðflokksins í þessum kosningum? Ekki má gleyma að formaðurinn Sigmundur Davíð á mikið fylgi í Norðausturkjördæmi og sama má segja um Bergþór Ólason í Norðvestur. Það er annars staðar á landinu þar sem flokkurinn er í standandi vandræðum, þar á meðal í þéttbýlinu á Suðvesturhorninu og það telur drjúgt í heildarfjölda atkvæða. Ekki hjálpar að tveir oddvitar flokksins í borginni eru óskrifað blað og fæstir kjósendur þekkja nöfn þeirra, hvað þá meira.
- Á samskiptamiðlum sést að sumir telja kosningabaráttuna n´ú heldur litlausa og tíðindasnauða. Þeim hinum sömu skal bent á að nú fer hagur Strympu líklega að vænkast. Kenningar Machiavellis ganga meðal annar út á réttar tímasetningar þegar kemur að árásum á andstæðinginn. Sagan segir okkur að nú sé að koma að hneykslismálunum. Þau eru venjulega löngu tilbúin og hafa verið vandlega undirbúin í röðum andstæðinganna, en beðið með þau fram á síðustu stundu svo þau valdi mestum skaða og erfitt sé að bregðast við þeim. Það má ekki gerast of snemma og ekki of seint. Dæmin sanna hið síðara; Jóhannes í Bónus keypti auglýsingar til að vara við Birni Bjarnasyni í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og Hafskipsmenn gulltryggðu Ólafi Ragnari forsetastólinn í kosningunum 1996 þegar þeir birtu breiðsíður um hann með margvíslegu níði á kjördag. Sú atlaga sprakk beint framan í þá.
- Líklegt má þess vegna telja að næstu dagar feli í sér fréttir af einu eða fleiri hneykslum sem skekja muni umræðuna. Pósthólf Viljans hefur ekki farið varhluta af ábendingum í þeim efnum.
- Og í lokin er rétt að benda fjölmiðlum á að forseti Íslands er ekki í framboði fyrir kosningar og furðuleg áhersla þeirra á að reyna að afhjúpa hneyksli í kringum hann vekur undrun. Guðni Th. Jóhannesson er grandvar heiðursmaður sem nýtur hylli vegna hreinskilni sinnar og auðmýktar. Hann er einn af okkur. Það þýðir að hann er líka mannlegur eins og við hin og gerir mistök, játar þau og biðst afsökunar á þeim. Ólíkt mörgum (flestum) öðrum. En stóru skandalarnir eru ekki hjá honum. Þeirra ætti að leita annars staðar.
En 10 dagar eru langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).