10 punktar um úrslitin og gallaðar kannanir, þjóðin vildi ekkert vinstri stjórn eða nýja stjórnarskrá

Nú þegar landsmenn melta lokaúrslit kosninganna í gær, hvort sem þeir eru alveg ósofnir eftir spennandi kosninganótt, eða nývaknaðir, þá er ágætt að pæla í þessum tíu punktum um stöðuna:

  1. Forsvarsmenn fyrirtækjanna sem framkvæma skoðanakannanir ættu nú að stíga fram og útskýra hvers vegna úrslit eru svo fjarri skoðanakönnunum síðustu dagana fyrir kosningar. Allt of mikill tími í kosningaumfjöllun fer í að ræða einstakar kannanir og breytingar milli þeirra, ef ekki er meira að marka þær til að skynja þjóðarviljann er raun ber vitni.
  2. Framsóknarflokkurinn vinnur ótrúlegan kosningasigur eftir að hafa setið í ríkisstjórn í fjögur ár. Flokkurinn endurheimtir fyrr sess í íslenskum stjórnmálum, á sumsstaðar fyrsta þingmenn kjördæmisins og getur haft ráðandi stöðu um framtíð landsmálanna; annað hvort um aukinn sess í áframhaldandi stjórnarsamstarfi með áherslum í sáttmála og með fleiri ráðherrastólum eða með forystu um annars konar stjórnarmynstur.
  3. Það síðarnefnda er þó harla ólíklegt, enda er ljóst eftir þessi úrslit að þjóðin vill ekki vinstri stjórn eða mögulegan glundroða og stjórnarkreppu. Línurnar eru miklu skýrari og ´ótrúlega lítið sem þarf til þess að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fái hreinan meirihluta.
  4. Sjálfstæðisflokkur má vel við una og náði á lokasprettinum að vara kjósendur við vinstri slysunum. Þannig virðist flokkurinn hafa reitt fylgi af Viðreisn, kannski eftir að seðlabankastjórinn blés efnahagsstefnu þess ágæta flokks út af borðinu.
  5. Vinstri græn tapa töluverðu fylgi, en þau geta samt vel talað um varnarsigur. Undir lokin hafa ýmsir reiðir vinstri menn greinilega ákveðið að kjósa fremur Katrínu Jakobsdóttur en dreifa atkvæðum út og suður. Sósíalistar töpuðu mest á því, enda toppuðu þeir viku of snemma og héldu að stórsigurinn væri kominn í hús. Það hefði samt alveg getað orðið forvitnilegt að fá Gunnar Smára Egilsson á þing og ótrúlegt miðað við plássið sem hann hefur tekið í baráttunni undanfarið að það hafi ekki tekist.
  6. Samfylkingin fær furðulega dapra kosningu og fylgi hennar í Kraganum virðist gufað upp. Hvar er til dæmis allt kratafylgið úr Hafnarfirðinum? Flokkurinn teygði sig of til vinstri og hélt að þjóðin væri róttækari en hún er. Það er til dæmis ekkert í þessum úrslitum sem bendir til þess að þjóðin telji (eins og Samfylkingin) að hér þurfi strax að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.
  7. Miðflokkurinn rak óskiljanlega kosningabaráttu og uppskar eftir því. Fljótandi fylgið fór líklega til Flokks fólksins sem var með miklu skýrari og einfaldari skilaboð. Margir fyrrverandi kjósendur flokksins á miðjunni og til hægri fóru heim til Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, líklega til að forða vinstri stjórn. Það að þetta hafi verið öflugasta kosningabarátta Sigmundar Davíðs hingað til, eins og hélt sjálfur fram í nótt, bendir til þess að hann þurfi betri ráðgjafa með sér í framhaldinu, ef hann ætlar flokknum eitthvað hlutverk áfram í íslenskum stjórnmálum.
  8. Píratar náðu aldrei vopnum sínum og jöfnunarkerfið bjargar þeim fyrir horn, sem er fyndið í ljósi þess að sjálfir myndu þeir vilja hafa kosningakerfið allt öðruvísi. Og eitt er víst, að ákall þeirra um að nýja stjórnarskráin verði samþykkt nú þegar, þarf varla að ræða frekar.
  9. Inga Sæland er stjarna og skemmtilegt val Flokks fólksins á meðframbjóðendum náði í gegn. Það er hressandi að fá fólk á borð við Tomma í Búllunni og Jakob Frímann á þing.
  10. Konur eru nú í meirihluta á þingi, sem eru auðvitað gríðarleg tímamót. Var ekki bara kominn tími á að prófa það? Endurnýjun í röðum þingmanna er mikil og mörg ný andlit verða nú landsþekkt á augabragði. Viljinn býður þetta fólk velkomið til leiks og þakkar þeim sem féllu af þingi fyrir unnin störf í þágu lands og þjóðar.