Eins og fram kom í gær, mun Viljinn telja niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni.
- Skoðanakannanir spretta nú fram eins og gorkúlur. Ríkisútvarpið birti könnun í gærkvöldi sem sýndi ríkisstjórnina með tæpan meirihluta en Bylgjan sagði í hádeginu frá könnun Maskínu þar sem stjórnin er kolfallin og auknar líkur á Reykjavíkurmódelinu í landsstjórninni. Enginn veit hvort er rétt, en þó virðist klárt að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn eiga í vök að verjast og fylgi er um þessar mundir ekki að aukast þar á bæ, heldur fremur hitt.
- Atli Ásmundsson, fv. aðalræðismaður í Winnipeg, var um áratugaskeið öflugasti erindreki Framsóknarflokksins en skipar nú heiðurssæti á lista Miðflokksins í Reykjavík. Hann tekur könnun Maskínu með miklum fyrirvara og segir á fésbókinni: „Ef maður ætti peninga og hefði áhuga á að reyna að koma á Reykjavíkurmódeli við landsstjórnina, væri vænlegt að hafa hald á eins og tveimur sjónvarpsstöðvum, einu víðlesnu dagblaði og svo vel smurða maskínu.“
- Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og oddviti framsóknar í öðru Reykjavíkurkjördæminu, mælist ekki inni samkvæmt könnun Maskínu, þótt Framsóknarflokkurinn sé á miklu flugi. Það gæti reynst gott tilefni fyrir flokkinn til að gefa út almennt herútkall til að tryggja honum þingsæti, því hann hefur óvænt orðið ein helsta stjarna ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu.
- Það fór eins og spáð var hér á þessum vettvangi í gær, að auknar vinsældir Framsóknarflokksins muni á endanum valda ólgu í Valhöll. Framsókn hefur verið í nær algjöru skjóli í kosningabaráttunni; aldrei þessu vant virðist engum sérstaklega illa við flokkinn eða frambjóðendur hans og fylgið er á uppleið. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, undrast þessar vinsældir samstarfsflokksins í ríkisstjórn og telur þær ekki verðskuldaðar: „Gamaldags íhaldsflokkur, jafnvel afturhald, nær að selja mörgum að hann sé miðjan í íslenskri pólitík og aðrir séu nánast öfgaflokkar, ýmist til vinstri eða hægri.“ Sannast þar hið fornkveðna sem allir framsóknarmenn þekkja úr sögunni, að Sjálfstæðisflokkurinn vill gjarnan hafa framsókn nógu öfluga til að geta myndað með henni ríkisstjórn, en alls ekki of öfluga.
- Meira um Framsóknarflokkinn. Jakob Bjarnar Grétarsson, stjörnublaðamaður á Vísi, telur flokkinn brillera í kosningabaráttunni: „Kjósendur virðast vera að átta sig á því að hryggjarstykkið í ríkisstjórninni, og þeim sem má þakka það sem jákvætt er og má kenna við ríkisstjórnina, er Framsóknarflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn tapar, VG tapa enda hvers vegna að kjósa þau þegar orgínallinn er til staðar; gamla góða „hví ekki að kjósa“ Framsóknarflokkurinn! Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það þetta að Framsóknarflokkurinn er pólitískt sjéní í kosningum. „Er ekki bara best að kjósa Framsóknarflokkinn?“ er eitthvert besta slagorð sem sést hefur í kosningabaráttu,“ segir hann á fésbókinni og undir þetta tekur Halldór Auðar Svansson, fv. borgarfulltrúi og nú frambjóðandi Pírata sem segir: „Sammála, þetta er strangheiðarlegt og skemmtilegt slagorð, rímar við upplifun fólks af flokknum.“
- Sjálfstæðismenn eru að vakna upp við þann vonda draum, að vinstri stjórn sé að verða líklegri og líklegri möguleiki að loknum kosningum. Kjarninn segir í fréttaskýringu að það stefni í verstu kosningaútkomu í sögu Sjálfstæðisflokksins: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar en hann gerir nú, eða 23,3 prósent. Hann er samt sem áður langstærsti flokkur landsins og næstum ellefu prósentustigum stærri en sá sem á eftir kemur, sem eru Framsóknarflokkurinn með 12,4 prósent fylgi. Ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi fá það fylgi sem hann mælist með nú í kosningunum eftir tólf daga þá yrði um að ræða verstu niðurstöðu hans í sögu flokksins. Frá því í vor hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað 2,5 prósentustigum af fylgi sínu, en það mældist 25,8 prósent í lok apríl. Þar af hefur eitt prósentustig farið af fylgi flokksins frá því í byrjun septembermánaðar.“
- Miðflokksfólk horfir ringlað á kannanir, því Gallup sýndi 8% í gær, en Maskína segir fylgið vera 5,5% og að flokkurinn fengi aðeins þrjá þingmenn. Hvort tveggja er undir kosningaúrslitum fyrir fjórum árum og veruleikinn er væntanlega einhvers staðar þarna á milli, en ljóst er að lokasprettur kosningabaráttunnar er upp á líf og dauða hjá Sigmundi Davíð og félögum.
- Píratar virðast hálf utangátta í kosningabaráttunni og ræstu út allsherjar björgunarsveit á dögunum til að bera til baka og tengja í jörð eftir að leiðtoginn Halldóra Mogensen kom glaðbeitt í Dagmál Morgunblaðsins og lýsti því yfir að lítið mál sé fyrir ríkissjóð að taka lán og koma á borgaralaunum í landinu. Hefur alls ekkert frést af þeim tillögum síðan.
- Sósíalistaflokkurinn stendur og fellur með foringja sínum, Gunnari Smára Egilssyni, sem kemur eins og fuglinn Fönix og talar eins og hann hafi alltaf staðið með lítilmagnanum í samfélaginu og aldrei verið í hópi hæstlaunuðustu forstjóra landsins. Ef þetta tekst og úrslit verða í samræmi við kannanir er hér á ferðinni eitt mesta afrek íslenskrar stjórnmálasögu. Nýjasta útspilið er að hreinsa þurfi til í gjörspilltum Hæstarétti, sem hafi verið handvalinn til að verja óbreytt kvótakerfi. Slíkar hugmyndir sýna að hinn nýi flokkur ætlar að standa undir sínu alþjóðlegu nafni.
- Vinstri græn gefa eftir í flestum könnunum. Hvað veldur? Forsætisráðherrann er vinsælastur allra stjórnmálamanna, en fólk ætlar samt ekki að kjósa flokkinn hennar. Því skal spáð hér að næstu daga muni allar auglýsingar hjá VG snúast um eitt og bara eitt: Katrínu Jakobsdóttur.
En 11 dagar eru langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).