12 dagar til kosninga: Kristrúnu fremur teflt fram en Loga

Viljinn mun telja niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni.

  1. Samfylkingin virðist hafa brugðist við minnkandi fylgi í könnunum með því að leggja áherslu á breidd framboðsins fremur en forystu Loga Einarssonar. Kristrún Frostadóttir hagfræðingur hefur svolítið stolið senunni og er nú meira teflt fram en sjálfum formanninum. Á samfélagsmiðlum spyr margt fólk í Samfylkingunni hvort þarna sé næsti formaður flokksins kominn?
  2. Framsóknarflokkurinn virðist með vel heppnaða auglýsingaherferð og spurningin sem dynur á landsmönnum er: „Er ekki bara best að kjósa framsókn?“ Flokkurinn mælist í nýrri könnun með 15% fylgi og virðist á uppleið. Tilkoma annarra framboða styrkir stöðu þessa gamalgróna stjórnmálaflokks og hann hefur notið þess hingað til að vera ekki skotspónn neins. Það er líklegt til að breytast samfara auknu fylgi.
  3. Miðflokkurinn virðist eiga erfitt með að ná vopnum sínum miðað við nýlegar kannanir. Herferð flokksins hingað til er of mikið út og suður. Þannig blasir við að keyra eigi á persónuvinsældum formannsins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrirheitum hans og efndum á fyrri loforðum, en þess í stað er mikilli orku og fjármunum eytt í að kynna minni spámenn sem vandséð er að eigi nokkurn möguleika á þingsæti. Sigmundur Davíð þarf sjálfur að stýra lokametrum baráttunnar ef ekki á illa að fara.
  4. Vinstri græn eru í vandræðum þrátt fyrir mikilar persónuvinsældir formannsins, Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Villta vinstrið er reitt út í flokkinn fyrir ríkisstjórnarsamstarfið og telur ljóst að atkvæði VG sé ávísun á sömu stjórn næstu fjögur árin.
  5. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn nær engu fylgi og framganga Glúms Baldvinssonar vekur helst athygli, en ekki endilega af réttum ástæðum. Fylgið sem Guðmundur Franklín, stofnandi flokksins, hafði í forsetakosningunum í fyrra, er ekki að skila sér nú.
  6. Sjálfstæðisflokkurinn siglir lygnan sjó, en sögulega séð er fylgið langt frá því sem ásættanlegt getur talist. Eina von flokksins virðist vera sú að ríkisstjórnin haldi velli, of margir flokkar í stjórnarandstöðu hafa heitið því að vinna ekki með flokknum í ríkisstjórn.
  7. Sósíalistaflokkur Íslands er á góðri leið með að vera einn af sigurvegurum kosninganna. Gunnar Smári Egilsson er alls staðar; hann skrifar nokkrar greinar á dag og mætir í hvert viðtalið á fætur öðru. Þegar vel gengur og útlitið er gott, er mikilvægt að ofmetnast ekki og misstíga sig.
  8. Flokkur fólksins rær lífróður að fimm prósenta markinu og þyrfti að nýta þekkta oddvita á borð við Tomma í Búllunni og Jakob Frímann betur.
  9. Píratar hafa ekki náð að skapa sér neina sérstöðu og lítill munur virðist á þeim og Samfylkingunni í mörgum málum.
  10. Viðreisn er að bæta verulega í á lokametrunum og þar munar mikið um sjónvarpsmanninn Sigmar Guðmundsson sem kemur ferskur inn í baráttuna. Eins og staðan er nú, er alls ekki ólíklegt að flokkurinn endi í ríkisstjórn og þá er staða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur ansi sterk.

En 12 dagar eru langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).