Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum!
- Hér er gerð tilraun til að svara spurningunni sem brennur á mörgum þessa dagana: Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast rétt norðan við tuttugu prósentin í fylgi tveimur dögum fyrir kosningar?
- Af samtölum við gamalreynda kosningajaxla og forystumenn margra flokka undanfarna daga er ljóst að óvissan í þessum kosningum er af áður óþekktri stærðargráðu. Enn virðast margir bera þá von í brjósti að úrslitin verði hagstæðari en kannanir benda til og vísa þá til þess að kjósendur kunni að kjósa annað í einrúmi í kjörklefanum þegar enginn sér til en þeir gefa upp aðspurðir.
- Við þurfum ekki að bíða lengi til að sjá hvort þarna er óskhyggja á ferð eða rétt ályktun, en hitt er ekki ólíklegt að einhverjir muni á endasprettinum komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé beinlínis sanngjarnt að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fái útreið eftir farsæla forystu í faraldrinum; að ekki sé kannski beint tilefni til að Sjálfstæðisflokkurinn fái sína verstu útkomu nokkru sinni og kannski sé mikilvægt að rödd Miðflokksins og Sigmundar Davíðs heyrist áfram, svo dæmi séu tekin. En endanlegt vald í þessum efnum er fólksins í landinu, okkar kjósendanna.
- Kappræðurnar á Stöð 2 í kvöld voru prýðilegt sjónvarp, svo sem vænta mátti. Ummæli kvöldsins voru þó tilsvar þáttastjórnandans Heimis Más Péturssonar við ummælum Gunnars Smára Egilssonar hjá Sósíalistaflokknum um að fylgi flokksins væri ansi gott miðað við allt það ríkisfé sem hinir flokkarnir hefðu fengið til að setja í auglýsingar. „Þú munt fá fé úr ríkissjóði líka og örugglega þiggja það,“ skaut Heimir Már að og í fyrsta sinn í manna minnum virtist Gunnar Smári kjaftstopp stundarkorn.
- Gunnar Smári er þó tvímælalaust ein helsta stjarna þessarar kosningabaráttu og fólk annað hvort hrósar honum í hástert fyrir vasklega framgöngu eða finnur honum flest til foráttu. Það eru heldur ekki neinir meðalmenn sem komast að sem fyrirmyndir sögupersóna í samtímaskáldverkum, eins og hann. Dr. Guðni Elísson prófessor, sendi nýlega frá sér stórvirkið Ljósgildruna og þar er fjallað um persónu sem kölluð er Rauði-Gunnar:

6. Ef skoðanakannanir dagsins, sem gerðar voru fyrir Fréttablaðið og Stöð 2/Bylgjuna, eru skoðaðar virðist flest benda til þess að níu þingflokkar verði á Alþingi á næsta kjörtímabili. Miðflokkurinn gæti verið að tapa nokkru fylgi frá síðustu kosningum, sem voru þær fyrstu í sögu flokksins, en Maskínukönnun kvöldsins sýndi flokkinn þó með ríflega sjö prósenta fylgi og á uppleið.
7. Formaðurinn Sigmundur Davíð fór þá óvenjulegu leið í kosningabaráttunni í dag að senda frá sér nokkurs konar ljóðagjörning á Vísi. Sjón er þar sögu ríkari.
8. Viljinn hefur séð fjölmarga sjálfstæðismenn í dag deila færslum sem efnislega eru eins eða svipaðar og ganga út á að hafna þeim málflutningi Framsóknarflokksins að framtíðin ráðist á miðjunni. Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra, segir til dæmis á fésbókinni: „Framtíðin ræðst ekki á miðjunni. Kjósendur vita ekki fyrirfram hvort miðjan mun halla sér til vinstri eða hægri eftir kosningar. Núna eru töluverðar líkur á fimm flokka vinstristjórn sem boðar skattahækkanir á fólk og fyrirtæki. Sem fólk hefur að sjálfsögðu fullan rétt á að velja. Framtíðin ræðst með því að taka afstöðu.“
9. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, reyndi að vera brattur í leiðtogaumræðum kvöldsins á Stöð 2, þrátt fyrir fylgiskannanir og benti á að lítið vantaði í reynd upp á að ríkisstjórnin héldi meirihluta sínum. Það er eflaust alveg rétt og gæti allt eins og orðið reyndin. En hvort Vinstri græn eru tilbúin að halda sambandinu áfram þrátt fyrir það, er allt annað mál. Vafalaust mun þar öllu skipta hvort flokkurinn nær að rétta eitthvað sinn hlut á endasprettinum, þá væntanlega á kostnað Pírata, Samfylkingarinnar og Sósíalistaflokksins.
10. Kristrún Frostadóttir, hin skeleggi framtíðarforingi Samfylkingarinnar, virðist hafa ákveðið að svara engu frekar um hlutabréfamál sín eða fjármálagjörninga. Til að gera langa sögu stutta, eru engar líkur á því að það plan gangi upp hjá henni. Meðan spurningum er ósvarað, verður hægt að velta þessu máli upp aftur og aftur. Rétt eins og Samfylkingin myndi hiklaust gera, væri umræddur stjórnmálamaður í einhverjum öðrum flokki. Kannski væri jafnvel búið að skipuleggja mótmælastöðu?
Spennan er því að nálgast hámarkið og aðeins tveir dagar til stefnu. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).