Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum!
- Hrósa má Morgunblaðinu og mbl.is fyrir vel heppnaða og metnaðarfulla kosningaumfjöllun. Blað og vefur hafa getað gert sér margvíslegan mat úr viðtölum við leiðtoga stjórnmálaflokkanna og í dag birtist í tveimur hlutum leiðtogakappræður sem vöktu talsverðar umræður. Einna athyglisverðust voru svör forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur sem sagði ekki sjálfsagt að hún leiði tilraunir til ríkisstjórnarmyndunar eftir kosningarnar á laugardag.
- Hvernig gæti slík ríkisstjórn litið út, spyrja þá margir úr því líkurnar á áframhaldandi samstarfi núverandi ríkisstjórnar virðast vera að fjara út. „Hún getur orðið fjögurra, fimm, sex flokka. Ég meina, það er þannig sem ég horfi á það. Og þá skiptir auðvitað máli að allir stjórnmálaflokkarnir nálgist það verkefni þannig að þeir vilji vera lausnamiðaðir og það þýðir að allir munu þurfa að gefa eitthvað eftir af sínum málum,“ sagði Katrín réttilega.
- Forsætisráðherra veit enda sem er að hver könnunin á fætur annarri er vonbrigði fyrir Vinstri græn og hana persónulega. Hér var í gær bent á þá staðreynd, hvort sem fólki líkar betur eða verr, að Katrín er afar vinsæll og vel metinn forsætisráðherra en formaður í fremur óvinsælum stjórnmálaflokki. Og einu möguleikar flokksins á einhvers konar varnarlendingu með fylgisaukningu á lokasprettinum í þessum kosningum er að fá fólk til að styðja hana persónulega með því að kjósa flokkinn.
- Morgunblaðið birti í dag könnun MMR á fylgi flokkanna sem tekin var í gær og dag. Hún sýnir nokkra sókn beggja hinna stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en VG á slæmum stað. Miðflokkur er í lífshættu en klórar þó aðeins sig upp. Píratar, Viðreisn og Sósíalistar dala en Samfylkingin og Flokkur fólksins sækja í sig veðrið. Flest er þarna innan skekkjumarka, en þó má segja að miðju-hægrið sé samkvæmt þessari könnun fremur að sækja í sig veðrið en vinstrið.
5. Framsóknarmenn kunna öll trixin í bókinni þegar kemur að kosningabaráttu. Ragnhildur Vigfúsdóttir deilir þessu á fésbókinni í kvöld: „Hringt var í mig frá framboði Ásmundar Einars, er hann í sérframboði?“ Ein af þeim sem bregst við athugasemdinni er Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri á Landspítalanum og fv. aðstoðarmaður velferðarráðherra. Hún segir: „Þetta er sama og virkaði hjá þeim síðast –– þá stóðu tveir ungir menn fyrir utan Melabúðina og óskuðu eftir stuðningi við Lilju Dögg. Virkaði þá.“ Það er semsé ekkert nýtt undir sólinni.
6. En fylgisaukning Framsóknarflokksins fer ekkert framhjá Íhaldinu. Þar á bæ eru menn tvístígandi yfir þróuninni, því bæði er Valhöll nauðsynlegt að sækja eitthvað af því fylgi aftur sem virðist vera að leka yfir til Framsóknar og eins hitt að Framsókn fái nóga kosningu til að geta komist í ríkisstjórn. Það eru nefnilega þrír flokkar alveg sérstaklega búnir að útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eftir kosningar; Samfylkingin, Sósíalistar og Píratar.
7. Björn Bjarnason, fv. ráðherra, er reynslumikill og djúpvitur í þessum fræðum og segir á vefsíðu sinni að Framsókn sé nú komin í skotlínuna: „Vegna athyglinnar sem Framsóknarflokkurinn nýtur og spádóma um að hann styrki stöðu sína beina andstæðingar hans í vaxandi mæli spjótum að flokknum.“ Það var og. Hér hefur nefnilega áður verið nefnt á þessum vettvangi, að flokkarnir hafi verið svo uppteknir af margvíslegum hjaðningavígum milli hægri og vinstri ásanna að gamla góða Framsókn á miðjunni slapp alveg og safnaði orku í friði og ró til þess að gæta mætt uppdressuð í slaginn.
8. Viðbrögð Björns og félaga eru ekki undarleg þegar horft er til þess að sjálfur Geir Jón Þórisson, fv. yfirlögregluþjónn, birti stuðningsgrein við Framsóknarflokkinn í Mogganum í dag og Jón Gnarr, fv. borgarstjóri, lýsi því yfir á Twitter að í fyrsta sinn á ævinni sjái hann ekkert sem mæli gegn því að kjósa Framsóknarflokkinn. Samkvæmt þessu fer þeim heldur fjölgandi en hitt, sem segja með sjálfum sér: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“
9. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, lét í kappræðum Moggans í ljósi efasemdir um að Framsóknarflokkurinn stæði undir því að hafa forystu á miðju stjórnmálanna. Hvort það þýðir að hún telji sig sjálf vera betur til þess fallin, hlýtur að koma í ljós á næstu dögum en óneitanlega fara vaxandi líkurnar á því að Sigurður Ingi Jóhannsson geti gert tilkall til forsætisráðherrastólsins.
10. Endataflið fer þannig að skýrast og frambjóðendur hafa nú aðeins skamman tíma til stefnu. Kappræður verða á Stöð 2 annað kvöld og í Ríkissjónvarpinu kvöldið fyrir kjördag. Fjöldi óákveðinna er enn mikill og útlit fyrir aftakaveður á kjördag. Hvaða afleiðingar getur það haft? Græða ríkisstjórnarflokkarnir á dræmri kjörsókn? Mun Katrín Jakobsdóttir biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt á mánudag?
Nú eru aðeins þrír dagar til stefnu, en margt getur þó enn gerst. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).