Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum! Hægt er að lesa fyrri pistla hér að neðan.
- Það er eins og viðskiptalífið hafi allt í einu áttað sig á því í dag að líkurnar á vinstri stjórn fari vaxandi með hverjum deginum. Sjálfstæðisflokkurinn er að gefa eftir í könnunum og fulltrúar hans virðast ekki vita sitt rjúkandi ráð; Brynjar Níelsson segir að flokkurinn eigi ekki að fara í ríkisstjórn með fylgi undir 25% og Sigríður Á. Andersen, fv. dómsmálaráðherra, kemur i viðtal og segist stoltust af skipun dómara við Landsrétt á sínum ferli sem senn lýkur. Hvorugt er líklegt til að laða óákveðna að á endasprettinum.
- Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, er loks búinn að fatta að Framsókn er að taka fylgi af honum og hnýtir í samstarfsflokkinn með að ekki sé hægt að bæta endalaust í endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu hér á landi. Vandinn er sá, að þar með gefur hann Sigurði Inga, Lilju og félögum allan heiðurinn af blómstrandi kvikmyndagerð hér á landi og það gæti skipt máli, því framsókn hefur ekki oft átt bakland í hinum skapandi greinum.
- Könnun Gallup, sem Ríkisútvarpið birti í kvöld, er afar áhugaverð. Hún sýnir að Flokkur fólksins er að sækja í sig veðrið, þvert á væntingar þeirra sem vilja tryggja líf ríkisstjórnarinnar. Kannski verða bæði Tommi í Búllunni og Jakob Frímann Stuðmaður orðnir þingmenn ásamt Ingu Sæland undir lok vikunnar.
- En könnunin sýnir líka afleita stöðu Miðflokksins og ef einhvern tíma var ástæða fyrir fólk þar á bæ til að hafa áhyggjur af framtíð flokksins er það nú. Nú hlýtur áherslan í baráttunni að verða öll lögð á að tryggja Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni framhaldslíf í pólitík og undirstrika mikilvægi þess að hann falli ekki af þingi. 3-5 þingmenn væru varnarsigur, miðað við stöðuna nú, en sú útkoma myndi samt kalla á alvarlega naflaskoðun.
- Samfylkingin virðist sækja í sig veðrið. Þegar rýnt er í tölurnar sést að flokkurinn bætir við sig fylgi undanfarna daga, sem er akkúrat það sem kosningastjórar vilja sjá á endasprettinum. Það getur skipt miklu máli, því sá flokkur sem kemur á eftir Sjálfstæðisflokknum að stærð gæti leikið lykilhlutverk í myndun nýrrar ríkisstjórnar.
- Kristrún Frostadóttir, oddviti flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu, hefur flogið hátt í kosningabaráttunni og svo virðist sem flokkurinn telji að hún ein sé oddviti í borginni en ekki líka Helga Vala Helgadóttir. Og hefur einhver séð hvað varð um Þórunni Sveinbjarnardóttur, oddvita flokksins í Kraganum? Af hverju er henni hvergi hampað? En Kristrún hefur með framgöngu sinni tekið mikið sviðsljós og fær nú fyrir ferðina í Mogganum og Viðskiptablaðinu og kvartar mjög undan þeirri umfjöllun. Það er óþarfa viðkvæmni, því umfjöllun um hlutabréfaeign hennar er ekkert öðruvísi en fjallað hefur verið um karla og konur í öllum flokkum hér á landi undanfarna áratugi. Og hefur Samfylkingin ekki tekið neina fanga í gagnrýni sinni í þeim efnum. Kristrún getur ekki komið beint úr bankakerfinu og ætlast til þess að ekki sé fjallað um hundrað milljóna króna hlutabréfasölu hennar af því að hún er kona og í Samfylkingunni. Hún á bara að vera bein í baki, svara fyrir sig og taka slaginn. Velkomin í pólitík.
- Nafnlaus síða Jæja-hópsins á fésbókinni hefur löngum verið vettvangur ömurlegs níðs rétt fyrir kosningar og af nýrri herferð hópsins, sem er kostuð á fésbókinni, sést að talað er fyrir hönd Sósíalistaflokksins. Kvartað er undan því að Samfylkingin vari fólk við að kjósa Gunnar Smára og félaga, því enginn flokkur vilji hann sem samstarfsaðila í ríkisstjórn.
- Steingrímur J. Sigfússon lætur brátt af þingmennsku eftir langan feril. Hann hefur verið í Alþýðubandalaginu og Vinstri grænum; formaður, ráðherra og forseti Alþingis. Hann er einnig guðfaðir þeirrar ríkisstjórnar sem landsmenn virðast vera búnir að gefast upp á og í spjalli við Vísi í dag virtist sem þingforsetinn væri orðinn sömu skoðunar og meirihluti flokksmanna VG, að samstarfið beri feigðina með sér. Steingrímur sagðist í viðtalinu skilja blendnar tilfinningar. Það hafi reynst mörgum erfitt að vinna með höfuðandstæðingnum.
- „Ég hef efasemdir um að svona samstarf eigi að vera til mjög langs tíma. Þá er ég að hugsa um langtímaþróun stjórnmálanna. En það getur verið mjög vel réttlætanlegt, skilað góðum árangri og gott fyrir land og þjóð eins og ég tel að þetta samstarf hafi verið,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Auðvitað er það málefnalega séð miku þægilegri og auðveldari kostur fyrir okkur að vinna með flokkum sem eru nær okkur í hinu pólitíska litrófi, ef það er í boði. Það er að segja ef hægt er að mynda sæmilega trausta ríkisstjórn frá vinstri til miðjunnar. En það verður að vera efniviður í hana.“
- Sá efniviður gæti verið í smíðum með vinstri beygju Framsóknarflokksins. Spurningin er hvort Sigurður Ingi nýtir lykilstöðu sína til að krefjast þess að verða aftur forsætisráðherra. Eitt er víst, að með níu þingflokka verður þrautin þyngri að mynda starfhæfan meirihluta og gæti stjórnarkreppa blasað við. Hver veit: Kannski verður kosið aftur til þings á næsta ári? Muna menn ekki kosningarnar 1978 og 1979?
Og fimm dagar eru ekki langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).