6 dagar til kosninga: Verður Gunnar Smári boðaður á Bessastaði?

Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum! Hægt er að lesa fyrri pistla hér að neðan.

  1. Einar Kárason rithöfundur og fv. þingmaður Samfylkingarinnar veltir fyrir sér fylgisaukningu sósíalista á fésbókinni og segir: „Er ekki bitra og beiska fólkið sem var með Miðflokknum síðast komið yfir á sósíalistana núna? Og allt í lagi með það? Alltaf stutt á milli öfganna og svona..“
  2. Einn þeirra sem svarar rithöfundinum er maður að nafni Sigurður H. Einarsson. Hann segir: „Ég er nú einn af stofnendum Samfylkingarinnar. Hef kosið Samfylkinguna siðan. En núna er ég farinn í Sósialistaflokkinn, og mun kjósa hann.“
  3. Talandi um Sósíalistaflokkinn. Lokahnykkur kosningastefnuskrár Sósíalista kallast Stórkostlegt samfélag og í kynningu flokksins í dag segir: „Um þetta snúast komandi kosningar. Stórkostlegt samfélag fyrir fjöldann eða land tækifæra hinna fáu. Það er enginn millileið. Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum. Annað hvort ræður almannavaldið eða auðvaldið.“
  4. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar og fv. aðstoðarmaður forsætisráðherra, fagnar þessu útspili og vísar til sögunnar: „Það er alltaf skemmtilegt fyrir okkur sögunördana þegar pólitísk slagorð ganga aftur. Nú er „Great Society“ Lyndon B. Johnsons komið til Íslands í „Stórkostlegu samfélagi“ Sósíalistaflokksins.
  5. Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra, er gamalreyndur refur þegar kemur að pólitík og hann veltir fyrir sér mögulegri stjórnarmyndun í færslu sem hann reit í dag á fésbókina: „Fylgi Guðni forseti þeirri reglu að tala fyrst við helsta sigurvegara kosninganna þegar stjórnarmyndun hefst eftir kosningahelgina bendir allt til að fyrsti gestur hans á Bessastöðum verði Gunnar Smári Egilson. Veruleikinn er oft skemmtilega súrrealískur….“
  6. Össur var auðvitað formaður Samfylkingarinnar, en var skipt þegar flokkurinn mældist með á fjórða tug prósenta af því að talið var að hann fiskaði ekki nógu vel. Síðan þá hafa slíkar fylgistölur aðeins komið fyrir í draumum hugdjarfasta Samfylkingarfolks og allt tveggja turna tal löngu gleymt. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, segir máltækið.
  7. Viðreisn kynnti stefnumál sín á blaðamannafundi í dag og takmarkið um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru var að venju ekki langt undan. Viðreisn áætlar að ráðstöfunartekjur heimilanna aukist um 72 þúsund krónur á mánuði á komandi kjörtímabili með því að tengja krónuna við evru, þar sem vextir, vöruverð og þjónustukostnaður munu lækka. Það eru tæpar 900 þúsund krónur á ári ef miðað er við par með tvö börn sem skuldar 31 milljón króna.
  8. Nú þegar aðeins fáeinir dagar eru til kosninga er enn allt upp í loft í stjórnmálunum. Óvíst er hvort ríkisstjórnin haldi velli og hvort þar er yfirleitt vilji til að halda áfram, náist meirihlutinn á annað borð. Þegar fram í sækir munu stjórnmálaspekingar eflaust velta því mjög fyrir sér hvers vegna Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur náðu ekki vopnum sínum í baráttunni meðan gamli Framsóknarflokkurinn mætti eins og sannri maddömu sæmir á ballið, algjörlega klár í slaginn.
  9. Innan raða Vinstri grænna gætir vaxandi pirrings með samstarfið, enda þótt það hafi gengið að mestu snurðulaust fyrir sig. Baklandið á í vök að verjast í gagnrýni frá vinstri og persónuvinsældir Katrínar Jakobsdóttur hafa ekki enn náð að hífa fylgið upp að einhverju ráði.
  10. Hvað gerist þá á laugardaginn? Eins og staðan er nú, gætu allt að níu þingflokkar starfað á Alþingi á næsta kjörtímabili. Það væri nýtt met í lýðveldissögunni og kannski er norræna margflokkakerfið að taka hér yfir. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur, er hann að stefna í sína alverstu útkomu nokkru sinni og þrír flokkar hafa útilokað fyrirfram að vinna með honum. Á Sigmundur Davíð eitthvað inni á lokasprettinum? Kemst Inga Sæland með Flokk fólksins upp fyrir 5%? Ná sósíalistar að skila sínu fólki í kjörklefann? Það verður spennandi að sjá.

En tæp vika er langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).