7 dagar til kosninga: Þunglyndislegt veður gæti fellt ríkisstjórnina

Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum! Hægt er að lesa fyrri pistla hér að neðan.

  1. Tölum aðeins um veðrið á Suðvesturhorninu undanfarnar vikur og mánuði. Í alvöru? Það er meira og minna sama veðrið; misgrenjandi rigning og grá þoka. Hálfur og hálfur dagur inn á milli með þokkalegu veðri, svo mígrignir aftur. Spekingar hafa löngum sagt að gott veður á hefðbundnum tíma íslenskra kosninga (maí/júní) komi sitjandi valdhöfum best, því þá sé fólk glatt í sinni og bjartsýnt á lífið og tilveruna. Ólíklegt til að gera stórar breytingar. En þetta?! Þunglyndið í veðrinu gæti fellt stjórnarmeirihlutann, því fólk verður þyngra í skapi þegar hundi er vart út sígandi dag eftir dag. Ugla, sem er ferfættur aðstoðarritstjóri Viljans, nennir alls engum göngutúrum þessa dagana eftir stutta veðurkönnun og merkingar brunahanans í götunni. Hún veit sínu viti.
  2. Einmuna blíða á Norður- og Austurlandi gæti að sama skapi komið stjórnarflokkunum vel. Kjósendur þar gætu allt eins búið í öðru landi en borgarbúar og nærsveitamenn miðað við því hvernig gæðum veðurs hefur verið skipt undanfarið. Hver er eiginlega ábyrgð veðurfræðinga?
  3. Kosningastjóri Miðflokksins er kominn í furðulegan slag við sjálfan Guðna Ágústsson. Eins og fornkappar takast þeir á með stóryrðum (sjá hér og hér), nema að annar á allt undir úrslitunum eftir viku en hinn siglir lygnan sjó og nýtur alþýðuhylli. Svo virðist sem Guðni liggi undir grun Miðflokksmegin um að hvetja gamla framsóknarmenn til að snúa aftur heim. Stærsta spurningin sem vaknar hjá hinum almenna kjósanda við að lesa um þessi glímubrögð er þessi: Hvernig stendur eiginlega á því að bæjarfulltrúi í Árborg er í 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík?
  4. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir lögmaður og fv. borgarfulltrúi er reyndar ein þeirra sem svarað hefur kallinu, eins og Viljinn greindi frá í gærkvöldi. Hún situr í stjórn Landsvirkjunar, tilnefnd af Miðflokknum en ætlar að segja sig úr stjórninni eftir helgi. Það myndi einhver telja málamyndagjörning, þar sem kjörtímabil stjórnar er senn á enda og nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar að skipa nýrra stjórn.
  5. Þórey Anna Matthíasdóttir, framsóknarkona til áratuga, brást undrandi við hinum nýja liðsmanni á fésbókinni: „Ég er alls ekki að kaupa þetta hjá henni og ég get lofað þér sem framsóknarkona í ríflega 35 ár er ég bara alls ekki að sjá nein tengsli við hana í flokknum. Er hún ekki bara í fýlu eins og venjulega og núna við Miðflokkinn eða bara eitthvað vesen á henni…… til að skemma, sprikla eða bara eitthvað. Tel það samt sérstakt því hún varð í raun Framsókn vegna stuðnings við Óskar Bergs og hann er nú enn að vinna með Sigmundi og reyndar talinn á teikniborðinu sá sem tók Þorstein þingmann niður. Áhugavert. Ég veit svo sem að Vigdís Hauks yrði alltaf tekið vel ef hún gengi til liðs við okkur aftur. Enda í sjálfum sér framsóknarkona alltaf. Skemmtilegir tímar.“
  6. Guðfinna Jóhanna hélt upp á það að vera komin aftur í framsóknarflokkinn með því að setja svofellt svar við færslu Þóreyjar, flokkssystur sinnar: „Æ Þórey þú ert of reið og lygin og það var ástæðan yfir því að ég henti þér út af feisbúkk fyrir nokkrum árum.“ Fólk er semsé bara alls ekkert að fara á taugum á lokasprettinum.
  7. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heyr mikla baráttu ásamt stuðningsfólki sínu fyrir því að komast inn á þing í höfuðborginni. Kannanir hafa ekki verið hagstæðar, en flokkurinn fær oft meira í kosningum en könnunum. Athygli vekur að kosningaskrifstofa hefur verið opnuð í Grafarvogi þar sem athyglinni er aðallega beint að baráttu Ásmundar Einars. Miðlæg kosningaskrifstofa flokksins, þar sem Ásmundi og Lilju Alfreðsdóttur er stillt upp sem tvíeyki í forystunni, er hins vegar staðsett í Borgartúni.
  8. Kjarninn segir frá því í fyrri kosningaspá, að líkurnar á því að ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sitji áfram eftir komandi kosningar séu nú 38 prósent. Þær hafi dregist skarpt saman síðustu vikur en í lok ágúst mældust líkurnar 60%.
  9. Stjörnublaðamaðurinn Jakob Bjarnar tekur á Vísi saman stuttan lista yfir þá sem hann kallar senuþjófa kosningabaráttunnar. „Þrír einstaklingar unnu yfirburðarsigur en þau eru Kristrún Frostadóttir Samfylkingu, Glúmur Baldvinsson Frjálslynda lýðræðisflokknum og Gunnar Smári Egilsson Sósíalistaflokki Íslands. Þau eru jöfn í fyrsta sæti. Nánast allir álitsgjafarnir nefndu þau til sögunnar.“
  10. Utanríkisráðuneytið hefur séð sérstaka ástæðu til að árétta að Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon, oddviti Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, hafi ekki af hálfu ráðuneytisins verið sakaður um óeðlilega framgöngu í erindrekstri sínum fyrir svokölluðu liprunarbréfi til að greiða fyrir för barns úr landi fyrir hálfu öðru ári. „Hvað varðar viðbrögð ráðuneytisins við fjölmiðlaumfjölluninni þá hafa þau ekki á nokkurn hátt beinst gegn Jakobi,“ segir í svari ráðuneytisins og þar tekið fram að „enginn hefur þar verið nafngreindur eða vændur um ósannindi, falsanir eða neitt slíkt.“ Í fyrstu frétt DV af málinu var Jakob Frímann einmitt sakaður um slíkt atferli.

En vika er langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).