8 dagar til kosninga: Ingibjörg Sólrún segir Katrínu og Bjarna keimlík

Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum! Hægt er að lesa fyrri pistla hér að neðan.

  1. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, utanríkisráðherra og borgarstjóri, er á fjarlægum og sendnum slóðum í Írak, en hefur samt gefið sér tíma til að fylgjast með Forystusætinu, spjalli við formenn flokkanna hvern í sínu lagi í Ríkissjónvarpinu. Hún segir þetta: „Ágætlega upplýsandi viðtöl við forystufólk flokkanna og mun betra en kraðakið þegar öllum 10 er stefnt saman í einu. Það sem stakk mig hins vegar var hvað framganga Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur var keimlík. Ekki stefnan heldur stíllinn. Menn draga dám af sínum sessunaut.“
  2. Dr. Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor skýrði í kvöldfréttum RÚV ágætlega fyrir ringluðum landsmönnum hvers vegna skoðanakannanir virðast sumpart sýna gerólíkar niðurstöður. Tók hann dæmi af Gallup-könnun þar sem ríkisstjórnin hélt meirihluta, en Maskínukönnun þar sem hún var kolfallin. Lá munurinn í því að í Maskínukönnuninni mældist Flokkur fólksins með 4,9% fylgi og engan jöfnunarmann en einn kjördæmakjörinn. Hjá Gallup var flokkurinn hins vegar aðeins norðan við 5% markmið og þá með þrjá þingmenn. Þarna lá munurinn á dauða eða framhaldslífi ríkisstjórnarinnar. Spáði prófessorinn því í fróðlegu spjalli við stjórnmálafræðinginn og fréttamanninn Magnús Geir Eyjólfsson að líklega muni líf stjórnarinnar sveiflast með álíka hætti alla kosninganóttina. Við bíðum spennt.
  3. Heldur hefur dregið úr slagkrafti umræðunnar um meint vínhneyksli á Bessastöðum, enda dettur sjálfsagt fæstum landsmönnum í hug að forsetinn sitji oft sjálfur að sumbli á síðkvöldum. Könnun ráðskonunnar á Bessastöðum á vínbirgðum forsetasetursins leiddi ekkert misjafnt í ljós og ef eitthvað var, komu tölur um kostnað embættisins við áfengisveitingar á undanförnum á óvart. Mörg fyrirtæki og opinberar stofnanir myndu telja þetta ansi vel sloppið.
  4. „Úr hvaða helli kemur fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn“ spurði sálfræðingurinn Hulda Jónsdóttir Tölgyes á Twitter og annar hver tístandi Valhallarmaður rak upp reiðiöskur og svaraði með sínu lagi. Merkilegt að sálfræðingur botni gjörsamlega ekkert í því að aðrir kunni að hafa aðrar stjórnmálaskoðanir en hún sjálf.
  5. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hefur upplýst að latneska danssprengjan Despocito sé að sínu mati eitt besta lag í heimi. Við það er auðvitað engu að bæta.
  6. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir í grein í Morgunblaðinu að Ísland sé háskattaland: „Það er óumdeilt að Ísland er háskattaríki hvernig sem á það er litið og frekar tilefni til þess að lækka álögur en að hækka þær. Skattkerfið á Íslandi er þegar tekjujafnandi og ójöfnuður mælist einna minnstur hér á landi. Það heyrist þó kunnuglegt stef úr herbúðum vinstri manna í aðdraganda kosninga, að lausnin við flestum vandamálum sé aukin skattheimta. Sagan kennir okkur þó að háir skattar beinast ekki bara að stórfyrirtækjum og efnameiri einstaklingum, jafnvel þó þeir hafi verið kynntir til leiks þannig, heldur bitna þeir í flestum tilvikum á millistéttarfólki. Við þurfum ekki að fara lengra aftur en til þeirrar ríkisstjórnar sem sat á árunum 2009-2013 til að sjá dæmi um það þegar tekjuskattur hækkaði á millitekjuhópa.“
  7. Skafti Harðarson, formaður Félags skattgreiðenda, gefur lítið fyrir slíkt tal ráðherra Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir kosningar eftir fjögurra ára samstarf með Vinstri grænum. Hann svarar Áslaugu og segir: „Það er sárara en orðum tekur að fylgjast með því hversu hljóð og mynd fara engan veginn saman þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokks á þingi tala um skatta. En hins vegar er enginn annar valkostur skárri, því miður. Við virðumst geta valið á milli þess að ástandið versni, skattar hækki og báknið belgist út, eða að skattar hækki enn meira og báknið belgist enn meira út. Ég skila ekki auðu, sleppi því ekki að nýta rétt minn, og valið stendur á milli tveggja valkosta; kjósa Karl Gauta [Hjaltason, þingmann Miðflokksins], sem er auðvitað ekkert annað en stjórnlyndur afturhaldsmaður, eða starfsmann fjármálaráðuneytisins, Bjarna Benediktsson. Og verð að þessu sinni að kjósa utan kjörstaðar svo útstrikun er ekki einu sinni möguleg. Hef hingað til strikað yfir Bjarna, Bryndís og Jón o.fl.“
  8. Ritstjóri og fréttastjóri DV sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem þau saka Stuðmanninn Jakob Frímann Magnússon, oddvita Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, um að hafa beitt barni fyrir sig í þöggunartilburðum á dögunum. Jakob svarar fyrir sig á sama vettvangi og bregst ókvæða við og segir málið sorglegan harmleik sem ekki eigi erindi í opinbera umræðu.
  9. Á meðan þessu vatt fram, tók annar oddviti Flokks fólksins, stutt hlé frá kosningabaráttunni til að snúa stuttlega aftur á sinn heimavöll. Var þar kominn veitingamaðurinn Tómas Tómasson, eða Tommi í Búllunni, sem steikti nokkra hamborgara í nýopnaðri Búllu í Grafarvogi. Tommi er stóröflugur frambjóðandi sem kemur til dyranna eins og hann er klæddur og verður líklega þingmaður áður en langt um l´íður, en kannski fær hann samt stundum að grípa í grillspaðann á næsta kjörtímabili til að halda sér við.
  10. 10. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, birti mynd af fundarauglýsingu á fésbókinni í dag þar sem hann tekur fram að hann sé glaður en ekki reiður. Fleira var það ekki i bili.

En 8 dagar eru langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).