Eins og fram hefur komið undanfarna daga, telur Viljinn niður dagana fram að kjördegi með tíu punktum um það helsta sem athygli vekur í kosningabaráttunni. Við þökkum frábærar viðtökur við þessum pistlum! Hægt er að lesa fyrri pistla hér að neðan.
- Margir velta fyrir sér hvort úrslitin í norsku þingkosningunum geti gefið einhverjar vísbendingar um það sem gerist hér í kosningum eftir fáeina daga. Vinstri stjórn er að taka við þar í landi af hægri stjórn, en umhverfismál skiptu ekki jafn miklu máli í kjörklefum Norðmanna og spáð var fyrirfram.
- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fv. forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, gerir úrslitin í Noregi að umtalsefni á fésbókinni og segir: „Úrslitin eru merkileg. Undanfarnar vikur höfum við heyrt það í fjölmiðlum að norsku kosningar snerust fyrst og fremst um loftslagsmál. Niðurstaðan varð sú að norski græningjaflokkurinn sem fylgir nokkurn veginn stefnu Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum (og væntanlega Frams.fl.) náði ekki 4% lágmarkinu. Sigurvegari kosninganna var norski Miðflokkurinn undir forystu hins ágæta Tryggva Vedum. Flokkurinn hefur að undanförnu legið undir ámæli álitsgjafa af vinstri vængnum (eru þeir það ekki flestir?) fyrir að vera orðinn „poppúlískur” en flokkurinn fékk talsvert meira fylgi en í könnunum. Villta vinstrið bætti líka við sig, sem og systurflokkur íslenska Framsóknarflokksins og Viðreisnar (Venstre) sem náði 4,5%.“
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn harðlega í Kosningastundinni, en útilokar þó ekki að ganga til liðs við ríkisstjórnarflokkanna þrjá og mynda með þeim stjórn eftir kosningar: „Spurð hvort hún útiloki í þessu ljósi að Viðreisn gangi til liðs við núverandi ríkisstjórnarflokka að loknum kosningum segir Þorgerður Katrín að hún útiloki ekki samstarf við neinn en muni beita sér fyrir að stjórnmálin færist inn á hina frjálslyndu miðju. „Með fullri virðingu þá eru Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn hvað fjærst okkur á hinu pólitíska litrófi,“ segir Þorgerður Katrín og bætir við að þó verið sé að vara við vinstri stjórn nú um stundir gjaldi hún varhug við að fara í hina áttina. „Ég vil vara sérstaklega við íhalds-hægri stjórn. Það er eitthvað sem er jafnvont og últra vinstristjórn.“
- Sósíalistinn Sólveig Anna Jónsdóttir, sem jafnframt er formaður Eflingar, lýsir á fésbókinni upplifun sinni af kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins með nokkuð athyglisverðum hætti: „Í morgun kl. 7.54 gladdist ég innilega og djúpt af því að Guðlaugur Þór glápti ekki lengur á mig og laug einhverju random rugli af strætóskýlinu mínu heldur var Lindex farið að auglýsa gallabuxur með afslætti. Ég hef aldrei verið jafn ánægð með að láta mæðulega unga konu reyna að selja mér eitthvað sem mig vantar ekki. Bókstaflega ALLT er betra en Guðlaugur Þór!”
- Stjörnublaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson segir á Vísi að Sigtryggur Magnason, aðstoðarmaður samgönguráðherra, sé höfundur slagorðs Framsóknarflokksins „Er ekki bara best að kjósa framsókn“ sem slegið hefur í gegn í kosningabaráttunni: „Kosningavél Framsóknarflokksins er vel smurð þegar henn er ýtt í gang eins og gömlum traktor og það var á fundi kosningaráðs sem Sigtryggur Magnason, aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns flokksins og samgönguráðherra, lagði þetta fram. Hann segir í stuttu samtali við Vísi að kosningastjórn og efstu frambjóðendur hafi þegar kveikt á því að þarna væri komið eitthvað sem hald var í. „Fólki fannst þetta virka vel innan þessarar heildar sem herferðin er,“ segir Sigtryggur sem er skáld og hefur starfað á auglýsingastofu. Hann veit því hvað klukkan slær.“
- Gísli Sigurgeirsson, sem um árabil var vinsæll fréttamaður Ríkisútvarpsins á Norðurlandi, upplýsir á fésbókinni um athyglisverða skoðanakönnun sem Háskólinn á Akureyri hefur gert á fylgi flokkanna í Norðausturkjördæmi. Þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi, 23%. Framsóknarflokkur fær 18,2% fylgi, VG 14,2%, Samfylkingin 10,9%, Miðflokkurinn 9,7%, Píratar 7,9%, Sósíalistaflokkurinn 7,1%, Viðreisn 4,6%, Flokkur fólksins 3,9% og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn með 0,4%.
- Sjálfstæðismenn láta Vinstri græn annars fara mjög í taugarnar á sér þessa dagana og segja umhverfisráðherrann til dæmis ekki geta farið framúr morgnana án þess að freista þess að friðlýsa eitthvað svæði. Jón Gunnarsson, þingmaður flokksins og fyrrverandi samgönguráðherra, er einn þeirra sem lýsir megnri óánægju með þessa friðunaráráttu, en ekki er líklegt annað en hann og aðrir þingmenn flokksins muni kyngja ælunni eftir kosningar að skipan formannsins, nái ríkisstjórnin að halda velli.
- Gísli Freyr Valdórsson, ritstjóri Þjóðmála, gerði meðvirkni Sjálfstæðisflokksins með stjórnlyndi VG einmitt að umtalsefni í forystugrein í gær, eins og Viljinn sagði frá. Lokaorð hans voru þessi: „„Stefnumál og áherslu Sjálfstæðisflokksins þurfa þó að vera einhverjar aðrar en þær að semja sig frá eða stoppa verstu málin frá Vinstri grænum. Ef að Sjálfstæðisflokkurinn sinnir ekki sínum eigin kjósendum þá fara þeir eitthvað annað – og reynslan á liðnum áratug hefur sýnt okkur að það er auðvelt að stofna nýjan stjórnmálaflokk.“ Þungur hnífur, myndi einhver segja.
- Píratar hafa eiginlega ekki náð vopnum sínum þegar kemur að stærðfræði, eftir að upplýst var um menntun Smára McCarthy í þeirri grein (sjá hér) en nýjasta útspil þeirra er s´íður en svo traustvekjandi. Flokkurinn birti nefnilega eigið kostnaðarmat á helstu stefnumálum sínum í gær og sögðu Píratar að kostnaðurinn væri 93,4 milljarðar króna. Á móti voru lagðar fram tillögur til tekjuöflunar upp á 83,7 milljarða. Kjarninn bendir hins vegar á, í frétt í dag, að í stærstu einstöku tillögu Pírata hafi þeir sjálfir reiknað vitlaust og fengið útkomu sem er tugum milljarða frá raunveruleikanum. Kjarninn segir í frétt sinni: „Í ljós hefur komið að stærsta einstaka tekjuöflunaraðgerðin, 3,75 prósentustiga hækkun efsta tekjuskattsþrepsins, var rangt út reiknuð hjá flokknum, svo skeikar tugum milljarða króna. Björn Leví Gunnarsson þingmaður flokksins viðurkennir í samtali við Kjarnann að fljótt á litið virðist skekkjan sem sett var fram af hálfu flokksins nema um 25 milljörðum króna hvað þessa aðgerð varðar.“ Hvað eru 25 milljarða á milli vina?
- Það er kannski ekki að undra, að Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, birti þessa skopmynd af því sem hann kallar efnahagsstefnu Pírata.
En 9 dagar eru langur tími í pólitík. Meira á morgun. (Ábendingar um áhugaverða punkta eða annað sem athygli vekur má senda á ritstjórn Viljans: viljinn@viljinn.is).