Davíð Oddsson fv. utanríkisráðherra sendir Guðlaugi Þór Þórðarsyni núverandi utanríkisráðherra kaldar kveðjur í Staksteinum Morgunblaðsins í dag.
Ískaldar kveðjur raunar, ef satt skal segja:
„Það er óburðugt að fylgjast með utanríkisráðherra úr Sjálfstæðisflokki síðustu misserin. Yfirmenn hans í ráðuneytinu dingluðu honum inn í Mannréttindaráð SÞ. Heitið er öfugmæli og ráðið verður SÞ reglubundið til minnkunar.
Borið er blak af WHO, sem er með allt niðrum sig í alvarlegustu málum samtímans. Forstjórinn kemur úr Byltingarflokki Eþíópíu, og neitaði sem heilbrigðisráðherra þar að viðurkenna útbreiðslu kóleru! Og sem enn verra var; hann gerði svo mannkyninu óbætanlegt tjón með því að hann þumbaðist við til 11. mars !!! að staðfesta að kórónuveiran smitaðist á milli manna.
Fyrsta verk þessa forstjóra WHO var að skipa ömurlegustu pólitísku fígúru samtímans, Mugabe, slátrarann frá Simbabve, sem „sendiherra góðviljans“ af hálfu WHO! Mugabe var þá á lokametrum sem einræðisherra.
Á sama tíma og yfirmenn ESB eru staðnir að því að láta Kína ritskoða yfirlýsingar sínar um kórónuveiruna ákváðu þeir, til að dreifa athyglinni, með skætingi í garð Ungverjalands eins og reglulega gegn Póllandi, sem þeir minna á að sé ekki lengur fullvalda ríki vegna aðildar sinnar að ESB.“
Og lokaorðin frá fyrrverandi utanríkisráðherra til eftirmanns síns eru þessi:
„Fyrstu þjóðirnar sem hlaupa til með umvöndunarprikið þegar ESB ýtir á takka eru skandinavísku barnapíurnar. Á meðan fullorðið fólk stjórnaði íslenska utanríkisráðuneytinu var þess vandlega gætt að Ísland væri ekki ein af barnapíunum.“
