Mannréttindadómstóll Evrópu er mikið til umræðu hér á landi. Óumdeilt er að Strassborg hafi fært margt í íslensku réttarfari til betri vegar, en þeim fer fjölgandi sem hafa áhyggjur af viðleitni dómstólsins til að verða einhvers konar 4. áfrýjunarstigið hér á landi.
Um þetta fjallar lögfræðingurinn og ritstjórinn Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra í Reykjavíkurbréfi helgarinnar, og vísar til nýlegrar umsagnar Lögmannafélagsins við frumvarp á þingi og viðtals í Morgunblaðinu við danskan lagaprófessor sem kom hingað til lands á dögunum í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar Íslands.
„Virðist Lögmannafélagið ekki átta sig á því, að fari svo að Ísland verði bundið af þessum dómstól gengi það gegn núverandi stjórnarskrá landsins. Núverandi ríkisstjórn og þeir flokkar sem að henni standa hafa að undanförnu sýnt að þeir gera ekki meira með stjórnarskrána en þeir gera með samþykktir landsfunda sinna, sem þeir gera ekkert með ef það hentar stundarveikleika þeirra,“ segir hann.
Yfirþyrmandi aumingjagangur
„En færi nú svo í öllum þeim yfirþyrmandi aumingjagangi sem einkennir íslensk stjórnmál í augnablikinu að það gengi eftir að MRD yrði 4. áfrýjunarstigið með miklu víðfeðmara umboði en sáttmálinn sjálfur stendur til, þá er rétt að lesa vandlega hvað lagaprófessorinn danski segir um hvernig dómar þar verða til.
Í hinu athyglisverða viðtali segir: „Andersen telur jafnframt að aðferð Mannréttindadómstólsins við að semja dóma sé gagnrýnisverð.
Dómstóllinn fái árlega um 50 þúsund umsóknir um málsmeðferð og vísi flestum frá með stuttri, skriflegri umsögn lögfræðings hjá dómstólnum sem einhver dómaranna skrifi undir. Sé hins vegar samþykkt að taka mál fyrir fari það í hendur dómara sem hafi forræði á málinu. Sá semji síðan drög að dómsniðurstöðu með aðstoð lögfræðinga dómstólsins. Hún sé síðan borin upp í viðkomandi undirdeild. Málflutningur sé skriflegur.
Við það tilefni geti aðrir dómarar lýst gagnstæðum sjónarmiðum. Þá geti þurft sterk bein til að ganga gegn niðurstöðu lögfræðinga dómstólsins og sjónarmiðum dómara aðildarríkis sem málið varðar.
Dómararnir hafi tilhneigingu til að fylgja sjónarmiðum dómara aðildarríkis sem málið varðar.“
Um þetta segir Davíð:
„Nái þeir, sem nú vinna hörðum höndum að því að sarga sundur hverja grein fullveldisins af annarri, sínu fram og bindi Ísland á klafa þessa dómstóls (sem rís reyndar ekki undir því nafni), sem þannig er lýst, þá vitum við hvernig komið er. Þá má áfrýja dómi sem sjö hæstaréttardómarar hafa dæmt og Róbert Spanó einn (með eða án samsráðs við helstu samráðsmenn sína) mun þá ráða því hvort dómur Hæstaréttar Íslands skuli standa.
Það væri ömurleg gjöf á aldarafmæli.
Sendingarnar frá Strassbúrg eru á hinn bóginn orðnar miklu skiljanlegri en áður var.
Og svei.“