Að standa í lappirnar

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður.

Athygli vakti á dögunum þegar Arion-banki setti sig opinberlega upp á móti skipan Héraðsdóms Reykjavíkur á skiptastjóra yfir þrotabúi flugfélagsins WOW air. Fór svo að bankinn (sem einn stærsti kröfuhafinn í búið) krafðist dómsniðurstöðu um hæfi Sveins Andra Sveinssonar hrl. sem skiptastjóra og tapaði á endanum, sem varla kom nokkrum manni á óvart sem þekkir til slíkra mála.

Rökstuðningur bankans fyrir hinni makalausu kröfu var sá að Sveinn Andri hefði í óskyldu máli gengið fram af slíkri hörku gagnvart bankanum og dótturfélagi hans, Valitor, að ekki yrði við unað. Semsé: Sveinn Andri hafði verið að vinna vinnuna sína og uppskorið með því heilaga reiði bankans og stjórnenda hans.

Það er ástæða til að hæla Símoni Sigvaldasyni, dómsstjóra Héraðsdóms, fyrir að hafa staðið í lappirnar í málinu, ekki síst þegar liggur fyrir í dag niðurstaða í skaðabótamáli tveggja félaga sem tengjast Wikileaks gegn Valitor.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi nefnilega kortafyrirtækið í dag til að greiða Sunshine Press (hverra hagsmuna Sveinn Andri sinnti sem lögmaður) og Datacell samtals 1,2 milljarða króna eftir að Valitor lokaði fyir greiðslugátt þar sem tekið var við millifærslum til styrktar Wikileaks.

Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum

Bróðurpartur bótanna, eða vel yfir einn milljarður, er dæmdur Sunshine Press, en það hlýtur eindregið að benda til þess að Sveinn Andri hafi unnið vinnuna sína vel og gætt hagsmuna sinna umbjóðenda, eins og honum er skylt að lögum.

Varla er nokkrum vafa undirorpið að Sveinn Andri er umdeildur — eins og svo margir aðrir í okkar litla samfélagi. En sem lögmaður virðist hann ná miklum árangri í sínum erindrekstri, eins og svo mörg mál hafa sýnt að undanförnu á ýmsum stigum íslensks réttarfars.

Það er gott að voldugir aðilar á borð við bankastofnanir geti ekki handvalið skiptastjóra eftir hentugleik og útilokað þá sem þora að vinna vinnuna sína, þótt það komi við kauninn á áhrifamiklum aðilum.

Réttlætisgyðjan var nefnilega blind. Og allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum.