Aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs skýtur föstum skotum að Davíð og Mogganum

„Utanríkisráðherra Íslands úr Sjálfstæðisflokki hefur forgangsatriðin og gildin á hreinu. Hann skorast ekki undan þegar leitað er til Íslands um setu í mannréttindaráði Sþ, heldur tekur frumkvæði og leiðir Ísland þar til forystu. Ráðið er síður en svo hafið yfir gagnrýni, enda notaði Ísland tækifærið sem í setunni fólst til þess að m.a. gagnrýna hlutdrægni ráðsins í garð Ísraels. Hvað WHO varðar hefur utanríkisráðherra svarað því til að stofnunin sé heldur ekki hafin yfir gagnrýni, en við fordæmalausar aðstæður sem þessar sé forgangsröðunin önnur en gagnrýni. Þegar um hægist verði farið vandlega yfir það sem hefði átt að fara betur og þar sé WHO ekki undanskilið. Varðandi forstjóra WHO og tilteknar embættisfærslur hans er ábyrgð utanríkisráðherra Íslands vandséð eða tengsl hans við WHO. Þau þyrfti í það minnsta að skýra betur.“

Þetta skrifar Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðamaður utanríkisráðherra, í færslu á fésbókinni, þar sem hún kemur Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra til varnar. Eins og Viljinn greindi frá fyrr í dag, skýtur Davíð Oddsson fv. utanríkisráðherra eiturpillum að eftirmanni sínum í Staksteinum Morgunblaðsins í dag.

Diljá Mist Einarsdóttir, annar tveggja aðstoðarmanna utanríkisráðherra.

„Þessi gildi og forgangsatriði eru skýr þegar kemur að því að gagnrýna þá stöðu sem upp er komin í Ungverjalandi. Þar hefur utanríkisráðherra ekki skorast undan og verið í liði með norrænum kollegum sínum, alþjóðlegum samtökum og mannréttindafélögum, svo dæmi séu nefnd, um að halda uppi merkjum mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. Allt mjög fullorðins, ef þú spyrð mig.

En ég er auðvitað ung og aðhyllist sömu gildi. Og það eru forréttindi að framfylgja slíkri stefnu. Ég hitti fjölbreyttan hóp fólks frá degi til dags og heyri í enn fleirum. Ef til vill horfðu hlutirnir öðruvísi við mér ef ég hefði einangrað mig uppi á hæð í Árbænum,“ bætir Diljá við og bætir við, til útskýringa fyrir „langflesta facebook-vini mína sem ekki lesa Morgunblaðið, líkt og á nú við um mikinn meirihluta landsmanna: Færslan er hugleiðing vegna Staksteina dagsins í blaðinu, en Staksteinar eru fastur liður í blaðinu, iðulega ritaðir af ritstjóra þess.“