Ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi, urðu til þess að Náttúruverndarsamtök Íslands sendu frá sér yfirlýsingu þar sem rangfærslum hans er mótmælt.
Gallinn er sá að tilvitnun Sigmundar Davíðs var sannleikanum samkvæm, en leiðrétting Náttúruverndarsamtakanna er á misskilningi byggð.
Í ræðu sinni sagðist Sigmundur meðal annars byggja afstöðu sína á viðvörunum Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar, en Viljinn skýrði nýlega frá ummælum forstjóra hennar í samtali við finnskt dagblað sem vakið hafa mikla athygli. Svo mikla raunar, að einn stofnenda Greenpeace hefur sagt þau vera „reiðarslag fyrir málflutning róttæklinga í loftslagsmálum“.
Alþjóða veðurfræðistofnunin er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna, eins og formaður Miðflokksins gat um í ræðu sinni.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum telja Náttúruverndarsamtök Íslands að Sigmundur Davíð hafi í ræðu sinni verið að vísa til allt annarrar stofnunar, Global Warming Policy Forum (GWPF), sem séu bresk samtök sem afneiti vísindalegum niðurstöðum um loftslagsbreytingar.
„Um þekkta svindlara er að ræða,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna til fjölmiðla.
Hvað það kemur ræðu Sigmundar Davíðs í þinginu við, kemur ekki fram í yfirlýsingunni, hvað þá sem á eftir fylgir:
„GWFP er alls óskyld Veðurfræðistofnun Sameinuðu þjóðanna, WMO, en GWFP flaggar gjarnan lógó-i WMO og höfuðpaurinn titlar sig sem WMO Secretary General. Öruggt er að WMO hefur ekki varað við „ofstæki í loftslagsmálum.”
Náttúruverndarsamtökin hefðu mögulega átt að telja upp að tíu, já eða jafnvel tuttugu áður en þau sendu yfirlýsinguna út, því það voru þau en ekki formaður Miðflokksins sem halda fram rangfærslum í málinu.
Rétt er að Alþjóða veðurfræðistofnunin hefur áhyggjur af þróun mála að því er varðar hlýnun jarðar. En jafnljóst er að forstöðumaður hennar varaði nýlega við ofstæki í umræðunni og kvartaði yfir því að umhverfisverndarsinnar settu nú vaxandi þrýsting á veðurfræðinga og vísindamenn um að draga upp dekkri mynd af stöðunni en ástæða er til.
Náttúruverndarsamtök Íslands gerðust sek um hið sama í makalausri yfirlýsingu sinni.