Ætti að leiða vörn grundvallargilda vestrænnar menningar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Breska tímaritið The Spectator birti í dag grein eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, þar sem hann fjallar um þann vanda sem kristin kirkja á Vesturlöndum stendur frammi fyrir og rekur sóknarfæri kirkjunnar í nútímanum.

Að mati Sigmundar skortir kirkjuna sjálfstraust. Í stað þess að vestræn kirkja sé leiðandi í að verja eigin gildi og sögu falli það oft í hlut þeirra sem standi utan kirkjunnar, jafnvel trúleysingja, að verja grundvallargildi kristni og vestrænnar menningar. Kirkjur Vesturlöndum eltist hins vegar um of við tíðarandann og reyni að aðlaga sig að skoðunum þeirra sem eru helst andsnúnir kristni með því að fylgja ríkjandi rétttrúnaðarstefnu. Oft á tíðum virðist vestræn kirkja reyna að keppa við róttækasta hluta vinstri- og græningjahreyfinga.

Í greininni eru nefnd ýmis dæmi um hvernig fulltrúar kirkjunnar hér á landi og erlendis hafi leitast við að fylgja slíkum hreyfingum. Sigmundur hrósar hins vegar biskupi Íslands fyrir að hafa stigið fram og stöðvað áform „markaðsfólks“ um að endurskilgreina kirkjuna.

Að mati Sigmundar ætti kirkjan að vera leiðandi í að verja grundvallargildi vestrænnar menningar og eigin arfleifð. Hann bendir á að boðskapur kirkjunnar eigi ekki síður við nú á þeim skrítnu tímum sem við upplifum en áður og geti gegnt mikilvægu hlutverki við að hjálpa samfélögum að takast á við stærstu áskoranir samtímans. Í greininni rekur Sigmundur ýmis afrek kirkjunnar og nefnir dæmi um ýmis helstu viðfangsefni nútímans og hvernig kristni geti veitt leiðsögn á grundvelli gilda sem hafi staðist tímans tönn.

Sigmundur nefnir að ekki alls fyrir löngu hafi kirkjan í Austur Þýskalandi, Póllandi og víðar tekið af skarið og varið frelsi og sannleikann gegn allsráðandi hugmyndafræði einræðisríkja. Nú þurfi kirkjan að tala fyrir skynsemi og góðum gildum á borð við fyrirgefningu og manngildi. Hún geti verið svarið við öfgakenndum og miskunnarlausum tíðaranda sem skipti fólki í hópa m.a. eftir kynþætti með því að minna á að allir séu skapaðir jafnréttháir.

Að lokum minnir Sigmundur á orð breska rithöfundarins og fræðimannsins William Ralph Inge „Sá sem giftist tíðaranda þessarar stundar verður ekkill á þeirri næstu“.

Grein Sigmundar Davíðs í heild sinni í The Spectator, má finna hér.