Ætti að sæma alla sem starfa í álveri á Íslandi orðu fyrir framlag sitt til loftslagsmála

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Furðulegt að sjá að fólk sem telur sig umhverfisverndarsinna skuli óska þess að álverinu í Straumsvík verði lokað,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, í færslu á fésbókinni.

„Á Íslandi losna sem nemur um 2 tonnum af CO2 fyrir hvert framleitt tonn af áli. Í Kína, þar sem framleiðslan er knúin með kolabruna, losar sama framleiðsla um 21 tonn af CO2 eða um tífalt meira.

Álverið í Straumsvík framleiddi í fyrra 212 þ. tonn af áli. Ef sú framleiðsla flyttist til Kína, eins og hún myndi gera við lokun í Straumsvík, færi magn losunar úr 424 kt. af CO2 í 4.452 kt.

Munurinn á þessu nemur margfaldri losun vegna umferðar á Íslandi. Það má svo bæta við flugi, skipum, heimilum, landbúnaði, hinum ýmsu iðnfyrirtækjum osfrv. án þess að það jafnaðist á við þá aukningu sem yrði á losun ef framleiðsla eins álvers flyttist frá Íslandi.

Með öðrum orðum. Þótt allar öfgakenndustu hugmyndir, til næstu áratuga, um að setja alla á reiðhjól, gera alla vegan og breyta Íslandi í „sænska hippakommúnu” myndu rætast næði það aldrei að vega upp þá aukningu sem verður á losun gróðurhúsalofttegunda ef álver flyst frá Íslandi.

Það ætti að sæma alla sem starfa í álveri á Íslandi orðu fyrir framlag sitt til loftslagsmála,“ segir Sigmundur Davíð ennfremur.