Af hrútskýringum og nafnlausu slúðri

Opinber umræða hér á landi getur oft tekið á sig ýmsar myndir til hins verra, einkum þegar undir niðri kraumar dagskrá sem þolir illa dagsljósið. Umfjöllun um forstjóra Ríkiskaupa, Söru Lind Guðbergsdóttur, virðist því marki brennd, tilteknir fjölmiðlar hafa birt furðufregnir um stjórnarhætti hennar, byggðar á nafnlausum heimildum, sem virðast settar fram í þeim tilgangi að grafa undan henni og gera störf hennar tortryggileg.

Þeir sem til þekkja, telja sig vita að forstjórinn hafi lítið til þeirra saka unnið að eiga slíkan fréttaflutning skilið og fiskur hljóti því að vera undir steini. Gæti verið að eiginmaður Söru, viðskiptablaðamaðurinn Stefán Einar Stefánsson, eigi sér óvildarmenn? Getur verið að hann hafi með ýmsum yfirlýsingum sínum í opinberri umræðu komið við kauninn á einhverjum?

En hversu lítilmannlegt er að láta slíkt bitna á maka viðkomandi með hrútskýringum og nafnlausu slúðri? Er það eitthvað sem samfélagið á að láta viðgangast á tímum jafnréttis og jafnra tækifæra?