Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast með 20% fylgi?

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Könnun Prósents, sem gerð var fyrir Fréttablaðið og birt er í dag, mælir Sjálfstæðisflokkinn með aðeins 20,1% fylgi. Þótt könnunin sé líttilega úr takti við aðrar kannanir sem gerðar hafa verið undanfarna daga, virðist sem hinn gamalreyndi stjórnmálaflokkur sem á höfuðstöðvar í Valhöll við Suðurlandsbraut stefni í sína verstu kosningaútkomu í sögunni.

Hvers vegna er Sjálfstæðisflokkurinn enn að tapa fylgi? Von er að spurt sé. Eru Íslendingar allt í einu orðnir vinstri sinnaðri en áður? Er almenn óánægja með framgöngu forystu flokksins í stjórnmálabaráttunni? Eru hægri menn ósáttir við flokkinn og að refsa honum? Er von fyrir flokkinn að ná þessum óánægðum kjósendum „aftur heim“ á þeim tveimur sólarhringum sem eru til opnunar kjörstaða?

Þetta eru vafalaust þær spurningar sem ræddar hafa verið í kosningastjórninni í Valhöll í morgun. Hvort sem fylgið er rúm 20% eða tæp 23% eins og MMR-könnun Morgunblaðsins sagði í gær, þá væru hvor tveggja úrslitin afhroð fyrir flokkinn í sögulegu samhengi.

Vitaskuld er einsdæmi í Íslandssögunni að stefni í kosningu níu þingflokka í þessum kosningum og því óhjákvæmilegt að fylgið dreifist út og suður, en kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins um „land tækifæranna“ hefur augljóslega ekki náð hylli kjósenda og minnir frekar á stöndugt tryggingafyrirtæki í ímyndaherferð fremur en stjórnmálaflokk sem minnir á grunngildi sín og er valkostur við vinstri pólitík. Þurfa sjálfstæðismenn því ekki að minna á að þeir standi fyrir einkaframtakið á lokametrunum? Minni ríkisumsvif? Skattalækkanir en ekki hækkanir?

Sjálfstæðisflokkurinn fékk sextán þingmenn kosna síðast, sem var það minnsta sem flokkurinn hafði uppskorið í kosningum síðan í kosningunum eftir sjálft hrunið árið 2009. Þá fékk flokkurinn einungis 23,7% atkvæða sem var versta útkoma hans í sögunni. Í kosningununum fyrir fjórum árum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 25,2% sem var næstversti árangur hans frá upphafi.

Ef úrslitin á laugardag verða sambærileg við þetta og jafnvel verri, er væntanlega ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn verður utan næstu ríkisstjórnar og þarf að fara í rækilega naflaskoðun og endurnýjun. Ekki aðeins á forystufólki, heldur líka stefnu sinni og baráttuaðferðum.

En næstu örfáa klukkutíma ættu flokksmenn ekki að nota til að vorkenna sjálfum sér og undrast stemninguna í þjóðfélaginu, heldur fara út á meðal fólks eða taka upp símann og minna á að einkaframtakið skipti miklu máli, blómlegt atvinnulíf sé undirstaða velferðar og góður árangur í efnahagsmálum komi ekki af sjálfu sér. Þori að vera hægri menn en reyni ekki að keppa við aðra flokka í rétttrúnaði eða vinstri mennsku.

Það er enn tími til stefnu og Íslendingar urðu ekki vinstri sinnaðir á einni nóttu. Maður heyrir vel á fólki í atvinnulífinu að áhyggjurnar fara vaxandi af því sem framundan er.