Af hverju má enginn heyra minnst á neðarjarðarlestarkerfi?

„Nú er talið að Borgarlína og önnur verkefni samgöngusáttamálans, muni kosta 300 milljarða króna. Það eru miklir peningar fyrir sérstakar akreinar fyrir strætisvagna milli borgarhluta höfuðborgarsvæðisins, brú eða göng Sundabrautar, stokka á Sæbraut og Miklubraut og fleira. Á sama tíma má enginn málsmetandi aðili heyra minnst á neðanjarðarlestarkerfi sem miklu mun fleiri myndu nota en nokkru sinni hraðstrætisvagna á nokkrum aðalleiðum. Málið er afgreitt út borðinu á 5 sekúndum: Allt of dýrt – við erum of fá. – Semsagt mótrökin eru algert kjaftæði.“

Þannig skrifar Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2, í athyglisverðri færslu á fésbókinni þar sem hann ber saman kostnað við samgöngusáttmálann og borgarlínuna sem deilt er um og svo neðarjarðarlestir erlendis.

„Samkvæmt mínum heimildum kostar hver boraður kílómetri ganga á bilinu 2-3 milljarða. Segjum þrjá milljarða til að vera nær íslenskri áætlanagerð. Fyrir 300 milljarða mætti leggja 100 kílómetra af lestargöngum !

Frábært og mikið notað nýtt neðanjarðarlestarkerfi Kaupmannahafnar er 38,2 kílómetrar. Svipuð vegalengd ætti að duga höfuðborgarsvæðinu. Kostnaðurinn yrði um 120 milljarðar, tæplega helmingur kostnaðarins við samgöngusáttmálann. Það væri því stór upphæð afgangs til að fara í stokka og brýr. Til að gæta allrar sanngirni væri þetta bara kostnaðurinn við að bora göngin og þá er allur annar kostnaður eftir.

Í stað þess að standa í íslenskum næðingi og bíða eftir Borgarlínu, væri hægt að ganga þurrum fótum á næstu neðanjarðarlestarstöð og vera kominn hvert sem er á höfuðborgarsvæðinu á 15 mínútum eða skemmri tíma.

Hundruð ef ekki þúsundir karla og kvenna, allt frá verkamönnum með skóflu til færustu verkfræðinga, arkitekta og annarra sérfræðinga fengju vinnu í tvo til þrjá áratugi við hönnun og lagningu neðanjarðarlestarkerfis sem, eins og í Kaupmannahöfn, yrði tekið í gagnið í áföngum samkvæmt langtíma áætlunum.

Þegar kerfið væri tilbúið nýtir það EINGÖNGU INNLENDA ORKU. Þetta yrði fjárfesting til margra alda og því engin ástæða að ætla sér að taka skammtímalán fyrir verkefninu. Þetta yrðu lán sem yrðu framlengd í eitt til tvö hundruð ár þess vegna. En ég veit, Íslendingum er mjög framandi að hugsa í langtímaáætlunum. Við erum inn við beinið bændur og vertíðarfólk sem miða allt við fjórar árstíðir.

Það er gott og nauðsynlegt að hafa almenningsvagnakerfi sem virkar og er skjótvirkt. En það er blinda og fásinna að halda að það leysi umferðarvandann. Neðanjarðarlestarkerfi er svo augljós, hagkvæmur, skilvirkur og þægilegur kostur að það sætir undrun að allir skuli ekki sjá það. En það kemur að því, sennilega of seint þegar kostnaðurinn verður meiri.

Við hefðum við þurft að gera ráð fyrir neðanjarðarlestarstöðvum í skipulagi fyrir löngu. Það á að geyma svæði á höfuðborgarsvæðinu fyrir framtíðar neðanjarðarlestarstöðvar í skipulaginu. Það á að fá erlenda sérfræðinga í neðanjarðarlestarkerfum STRAX til að byrja að kortleggja kerfið.

Landsmenn verða brátt 400 þúsund. Fólksfjölgunin er miklu hraðari en nokkrar áætlanir gerðu ráð fyrir og allar spár Hagstofunnar orðnar úreltar. Við verðum hálf milljón innan eins til tveggja áratuga. Flestir búa á höfuðborgarsvæðinu eða 2/3 og þar eru flestir af tveimur milljónum ferðamanna sem brátt verða einnig mun fleiri.

Það er fásinna að byrja ekki strax að leggja drögin að neðanjarðarlestarkerfi. Mjög dýrkeypt fásinna sem verður að koma stjórnmálamönnum í skilning um. Eins og svo oft áður þarf að sprengja íslenska stjórnmálamenn út úr moldarkofa hugsanahættinum og fá þá til að horfast í augu við raunveruleikann, staðreyndir dagsins í dag og náinnar framtíðar jafnt sem fjarlægrar.

Á myndinni má sjá kort af 38,2 km löngu neðanjarðarlestarkerfi Kaupmannahafnar. Í grunninn er það þrjár línur sem allar hafa snertiflöt við stóra hringleið um borgina. Snilldarskipulag.

Þetta getum við líka gert. Skapar mikla atvinnu á þróunar- og framkvæmdatíma og nýtir eingöngu íslenska GRÆNA ORKU og dugar í mörg hundruð ár,“ skrifar Heimir Már ennfremur.