Nú þegar vonin um allt verði fljótlega frábært vegna Pfizer-bóluefnarannsóknarinnar eru að engu orðnar, beinist athyglin eðlilega aftur að stöðunni eins og hún er í raun og veru í bólusetningaráformum stjórnvalda vegna COVID-19.
Það var eðlilegt að við tækjum boði um að fylgja Evrópusambandinu að málum við öflun bóluefnis, en óskiljanlegt að við höfum jafnframt undirgengist að þar með megum við ekki reyna sjálf að tryggja okkur bóluefni á eigin forsendum. Hver tók þá ákvörðun? Og hvers vegna?
Staðreyndin er að bóluefnaáætlun Evrópusambandsins, sem við Íslendingar höfum sett allt okkar traust á, er klúður frá upphafi til enda. Það er ekki bara Viljinn sem heldur því fram, heldur allir helstu fjölmiðlar Evrópu. Og raunar viðurkenndi sjálfur forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, Ursula von der Leyen, það sjálf á blaðamannafundi fyrir helgi.
Og von der Leyen sagði samstarfið hafa verið nauðsynlegt fyrir Evrópusambandið. Ekki fyrir einstök lönd Evrópu eða íbúa þeirra. Nei, því að innkaup einstakra ríkja og kapphlaup þeirra á milli hefði getað gengið af sambandinu dauðu, sagði hún.
„Ríki getur farið um eins og hraðbátur, ESB er meira eins og tankskip,“ sagði hún í viðtali við þýsku fréttasíðuna Süddeutsche Zeitung á dögunum.
Eftir stendur spurningin: Hvers vegna vildum við Íslendingar ekki gera eins og Bretar, Serbar, Ísraelsmenn og margar aðrar þjóðir og freista þess að tryggja okkar eigin hagsmuni? Hvers vegna tóku íslensk heilbrigðisyfirvöld þá ákvörðun að framtíð Evrópusambandsins væri mikilvægari en að koma Íslandi sem fyrst út úr kreppunni sem hér er?
Ísland á nefnilega ekki aðild að Evrópusambandinu. Og hefði getað verið hraðbátur eins og Ísraelsmenn sem fengu bóluefni fyrir alla þjóðina eftir að forsætisráðherrann hringdi sautján sinnum í forstjóra Pfizer.
Það var pólitísk ákvörðun að fara um borð í tankskipið þar sem flest hefur klúðrast sem klúðrast getur. Sú ákvörðun gæti reynst afdrifarík og mun hana verður tekist í komandi kosningabaráttu.