Af hverju var Jódís ekki tekin á teppið?

Facebook.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var ekki lengi að sýna styrk sinn og undirstrika stöðu með því að taka Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskólaráðherra á teppið eftir ríkisstjórnarfund á föstudag.

Það var forsætisráðherralegt hvernig Katrín útskýrði að ummæli Áslaugar Örnu um Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra hefðu „alls ekki verið viðeigandi“ og stjórnmálamenn „sem vilja telja sig vera forystufólk í stjórnmálum og vilja láta taka sig alvarlega, að það sé mikilvægt að þeir vandi sig þegar þeir ræða um samstarfsmenn sína. Það sé gert af ábyrgð og virðingu.“

Allt er þetta satt og rétt.

En hvað um Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna? Hvar var hún þegar stjórnmálafólk úr flokki hennar gekk miklu harðar fram gegn tveimur fyrrverandi dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins í hennar ríkisstjórn, þeim Sigríði Á. Andersen og Jóni Gunnarssyni?

Var það ekki beinlínis hún sem kom þeim skilaboðum skýrt til formanns Sjálfstæðisflokksins að bæði yrðu að hætta sem ráðherrar, ella myndi VG ekki verja þá vantrausti í þinginu?

Og hvar var Katrín með viðmið sín og prinsipp um það sem er viðeigandi fyrir stjórnmálamenn að segja og hvað ekki í sumarbyrjun þegar Jódís Skúladóttir, einn af þingmönnum hennar setti fram breiðsíðu sína á Sjálfstæðisflokkinn?

„Innanmein Sjálfstæðisflokksins eru átakanleg á að horfa. Hádramatískur tangó Jóns og Gunnu hefur verið frekar taktlaus og feilsporin stigin á sárar tærnar aftur og aftur enda virðist hljómsveitarstjórinn Bjarni Ben ekki alveg ráða við svona flókið tónverk. Til að víkja athygli þjóðarinnar frá þessum darraðadansi og til að bregðast við fylgistapi, sameinast þau nú öll í að velta sér upp úr rasíska drullupollinum í von um að geta kroppað inn einhver prósent frá systurflokkum sínum í útlendingamálum, Miðflokki og Flokki fólksins,“ sagði stjórnarþingmaðurinn Jódís Skúladóttir þá.

Engum fregnum fór um að Katrín Jakobsdóttir hafi tekið hana á teppið fyrir þau ummæli. Þau standa þannig væntanlega óbreytt og hljóta að teljast til marks um undirlægjuhátt sjálfstæðismanna gagnvart samstarfsflokknum. Þurfa ekki allir að bera virðingu fyrir öðrum, eða bara sumir? Var hentugt að henda Áslaugu Örnu fyrir lestina, sömu leið og Sigríði Ásthildi og Jóni Gunnarsyni?

Er Valhöll í alvöru undrandi á því að fylgið sé á niðurleið?