Af svörtum lista í verkfalli kvár og kvenna

Kvár- og kvennaverkfall þriðjudagsins þykir mörgum horfa undarlega við, ekki síst hinn harði tónn sem skipuleggjendur hafa gefið út um að markmiðið sé að „valda usla“ í samfélaginu.

Ágætt er að rifja upp að ekki er allur rekstur í landinu opinber. Hér er líka einkaframtak og fyrirtæki, með rándýra jafnlaunavottun upp á vasann, sjá sig knúin til að gefa kvenstarfsmönnum launað leyfi þennan dag til að lenda ekki á svörtum lista skipuleggjenda, með BSRB í broddi fylkingar.

Að minnsta kosti var hressandi að sjá viðtalið við framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í kvöldfréttum RÚV, þar sem hún benti á að kynbundinn launamunur sé vart til staðar lengur og gríðarmargt hafi áunnist. Sjálf hafi hún mikla trú á valdeflingu kvenna og sem dæmi nefndi hún að forsætisráðherra landsins sé kona, líka nýr fjármála- og efnahagsráðherra og hún sjálf og formaður Eflingar séu fjögur dæmi um konur sem geti með störfum sínum haft mikil áhrif á samfélagið og í áframhaldandi jafnréttisbaráttu.

Enn liggur ekkert fyrir um hvernig aukafrídagurinn verður vigtaður inn í jafnlaunavottun næsta árs. Reykjavíkurborg mun væntanlega tilkynna að karlmönnum verði meinaður aðgangur að sundlaugum borgarinnar, í ljósi þess að konur geti ekki notið lauganna vegna skorts á starfsmönnum til að sinna öryggisgæslu í kvennaklefum. Eitt skal yfir alla ganga. Nema launaða fríið.

Mest jafnrétti í heimi en samt

Tossalisti BSRB strýkur mörgum öfugt, enda krafan sú að kvennafrídagurinn, sem nú heitir kvennaverkfall, og var áður rammaður inn í tengslum við þann launamun kynjanna sem þá var til staðar, virðist nú orðin enn ein uppákoman þar sem markmiðið er að valda atvinnulífinu eins miklu tjóni og nokkur kostur er.

Skipuleggjendur gera meira að segja kröfu um að þeir sem ekki mæta til vinnu þennan daginn ávinni sér orlofsréttindi á meðan. Þá gildir einu hvort viðkomandi mætir til hátíðahalda eða er heima að horfa á Netflix.

Og grein forsvarskvenna verkfallsins sem birtist á dögunum má skilja þannig, að það sé erfitt að búa í landi sem teljist í fremstu röð í heimi þegar kemur að jafnrétti:

„En við ætlum ekki að bíða lengur og krefjumst aðgerða strax! Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og launafólks hafa blásið til heilsdags kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi. Það þýðir að konur og kvár sem geta, leggja niður störf; mæta ekki til vinnu, annast ekki börnin s.s. gefa þeim mat eða smyrja nesti né sinna veikum fjölskyldumeðlimum heldur fá karlkyns fjölskyldumeðlim til að standa vaktina. Sleppa öllu sem gæti talist til starfa hvort sem er átt við launaða vinnu, eða ólaunaða líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu. Svo eru þau hvött til að mæta á útifundi á Arnarhóli eða í sinni heimabyggð og sýna samstöðu í verki.

Yfirskrift verkfallsins 24. október er „Kallarðu þetta jafnrétti?” og vísar til þess að konur og kynsegin fólk fái ítrekað þau skilaboð að vegna þess að Ísland sé fremst meðal jafningja þegar kemur að jafnréttismálum, eigi þau ekki heimtingu á tafarlausum eða framsæknum aðgerðum.“

Það var og…