Af þingmönnum og starfstitlum sem ekki standast nánari skoðun

Skýrt var frá því í fjölmiðlum í gær og dag að áhöld væru uppi um réttmæti skráninga í starfsferilsskrá Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingkonu Miðflokksins, á vef Alþingis. Hún væri skráð ritstjóri, sem hún hefði ekki verið og þroskaþjálfi, sem hún væri heldur ekki.

Við upphaf þingfundar í dag tók Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, öll tvímæli af um það að hér væri ekki við þingkonuna sjálfa að sakast. Hún hefði ekki gert neitt rangt. Skrifstofa Alþingis hefði gert mistök við innskráningu upplýsinga.

„Forseti vill taka fram vegna fjölmiðlaumfjöllunar sem orðið hefur um æviferilsskrá háttvirts þingmanns Önnu Kolbrúnar Árnadóttur að það mál hefur verið athugað af hálfu Alþingis og er niðurstaða þess skýr, að hv. þingmaður hefur í einu og öllu tilreitt réttar upplýsingar um sinn æviferil. Ef athugað er hvernig þar er skráð er um mislestur að ræða þar sem því hefur verið haldið fram að hv. þingmaður hafi ranglega titlað sig þroskaþjálfa. Svo er ekki. Í þeim tölulið þar sem hv. þingmaður tilgreinir námsferil sinn kemur skýrt fram að hún hefur háskólapróf og önnur sérfræði- og lokapróf á námsferlinum eins og þar er tilgreint sem og próf í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á sérkennslu.

Hv. þingmaður hefur hins vegar starfað sem þroskaþjálfi og fagstjóri.

Varðandi annað atriði sem einnig hefur verið gert að umtalsefni, að hv. þingmaður hafi haldið því ranglega fram að hún hafi verið ritstjóri Glæða, fagtímarits sérkennara, skráði hv. þingmaður það ekki inn heldur hefði innskráning skrifstofunnar mátt vera skýrari varðandi það atriði og réttara hefði verið að skrá að hv. þingmaður hefði verið í ritstjórn. Það er ekki við hv. þingmann að sakast.

Vonar forseti að þar með sé það mál af heimi,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Að vera eða vera ekki stærðfræðingur

Mál þetta minnir hins vegar á umræður sem sköpuðust um tvo þingmenn Pírata, þá Jón Þór Ólafsson og Smára McCarthy og þá titla sem þeir gáfu upp.

Í kosningabaráttu fyrir tveimur árum vakti athygli að Smári McCarthy, þingmannsefni Pírata, var skráður stærðfræðingur á Linkedin-síðu sinni, hann hefði lokið B.Sc. gráðu.

Í ljós kom að það var alls ekki rétt. Smári brást skjótt við og svaraði: 

„Skal viðurkenna að þetta er fullkomlega kjánalegt hjá mér á LinkedIn, enda var ég þar að reyna að gefa til kynna að ég væri í B.Sc. námi, ekki að því væri lokið. Biðst afsökunar á því, og myndi glaður breyta þessu en hef ekki haft aðgang að síðunni mjög lengi, eftir að ég reyndi að loka aðganginum, einmitt vegna þess að það var margt rangt þarna og óuppfært. Það kemur mér mjög á óvart að þetta sé enn til.“

Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði við Háskóla Íslands, gagnrýndi þá þetta svar Smára og sagði hann ekki aðeins hafa gefið sig út fyrir að vera stærðfræðing, þótt hann væri það ekki, hann hefði líka verið að kenna stærðfræði með slæmum árangri:

„Smári, hvernig getur þú sagt að þú hafir átt lítið eftir til að klára stærðfræði? Ég veit ekki betur en að þú hafir aldrei náð að klára svo mikið sem fyrstu önnina. Hins vegar varstu mjög duglegur að bulla um stærðfræði á wikipedia, þrátt fyrir að hafa kolfallið í þeim kúrsum sem viðkomandi efni fjallaði um. Afraksturinn var ranghugmyndir hjá nemendum og fyrir vikið hafa ófáir stærðfræðikennarar blótað þér í sand og ösku, eins og þú veist af.“

Jón Þór, Sigmundur Davíð og Gísli Marteinn

Annað dæmi er af Jóni Þór Ólafssyni þingmanni Pírata, en hann hefur ekki lokið háskólanámi. Engu að síður titlaði hann sig sem stjórnmálafræðing í aðsendum greinum í Fréttablaðinu fyrir nokkrum árum.

Skemmst er líka að minnast fjörugrar umræðu um doktorsnám Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Oxford. Þeir voru til sem héldu því fullum fetum að hann hefði aldrei verið þar í doktorsnámi, það væri bara skáldskapur. Sú umræða dó hins vegar út þegar Kolbeinn Stefánsson, fv. formaður Ungra jafnaðarmanna, staðfesti í viðtölum að hann hefði dvalið löngum stundum með Sigmundi Davíð í Oxford á þessum tíma og hann hefði víst stundað þar doktorsnám.

Lokadæmið snýr svo að Gísla Marteini Baldurssyni sjónvarpsmanni og fv. borgarfulltrúa. Hann hafði lagt stund á nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, en ekki lokið prófi. Í millitíðinni kom út bókin Samtíðarmenn, þar sem m.a. var fjallað um Gísla Martein og þar birtust upplýsingar um að hann væri stjórnmálafræðingur.

Í harðvítugri prófkjörsbaráttu Sjálfstæðisflokksins var gert úr þessu stórmál og viðurkenndi Gísli Marteinn að hann hefði skilað upplýsingunum inn, þar sem hann hefði átt von á því að vera búinn að ljúka við gráðuna þegar bókin kæmi út. Það hefði hins vegar ekki tekist.

Gísli Marteinn lauk hins vegar seinna við próf sín og fór í framhaldsnám erlendis í skipulagi borga.