Áleitnar spurningar vakna í kjölfar þess að FATF, alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hefur ákveðið að setja Ísland á svokallaðan gráan lista yfir ríki sem þurfa að koma sínum málum í lag.
Látum hér liggja á milli hluta að íslensk stjórnvöld hafa haft langan tíma til að bregðast við og koma hlutum í lag, en skoðum fyrst þá óbilgirni sem felst í því að setja þróað vestrænt lýðræðisríki á slíkan lista.
Af einhverjum ástæðum gengu Bretar og Bandaríkjamenn hart fram í gagnrýni sinni á Ísland og breytti engu þótt Evrópusambandið og fjöldi annarra ríkja tæki málstað okkar. Svo mjög virðist hafa legið á að slá á íslenskar hendur, að hópurinn gaf sér ekki tíma til að skoða þær úrbætur sem ráðist hefur verið í hér á landi undanfarin misseri, en þær eru mjög miklar, nú síðast með lagasetningu sem keyrð var í gegn á þingi á dögunum.
Þetta minnir óþægilega mikið á dagana örlagaríku haustið 2008, þar sem þessar gömlu vinaþjóðir Íslendinga, gengu einnig hart fram í hagsmunagæslu á okkar kostnað, en margar aðrar þjóðir reyndust okkur miklu betur.
Allt vekur þetta áleitnar spurningar um utanríkisstefnu þjóðarinnar, því utanríkisráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson hefur lagt ríka áherslu á að bæta samskipti við Bretland og Bandaríkin. Svo mjög að forustumenn Bandaríkjanna hafa verið tíðir gestir hér á landi undanfarið og lýst því yfir, að þeir vilji allt fyrir okkur gera.
Eða næstum því. Vináttan er ekki meiri en svo, að á sama tíma voru erindrekar Bandaríkjanna að vinna gegn íslenskum hagsmunum innan FATF-hópsins.
Og meðal annarra orða: Bretland og Bandaríkin hafa engan veginn efni á því að leggja öðrum lífreglurnar þegar kemur að alþjóðaviðskiptum, peningaþvætti og fjármagnsflutningum á gráu svæði. Þessi ríki eru hins vegar svo voldug, að engum dettur í hug að setja þau á gráan lista. Ekki heldur ríki sem nýlega hefur verið upplýst að hýstu umfangsmikið peningaþvætti norrænna banka í Eystrasaltsríkjunum. Þau fóru heldur ekki á gráan lista.
En Ísland fór á gráa listann. Þá var sko engin miskunn.
Þess vegna er umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga, hvort skynsamlegt er til framtíðar að binda ítrekað trúss sitt við stórþjóðir sem snúa alltaf við okkur bakinu þegar þeim hentar á alþjóðavettvangi.
Bretar misbeittu valdi sínu og settu okkur á hryðjuverkalista 2008. Bandaríkjamenn neituðu Seðlabanka Íslands um gjaldmiðlaskiptasamning, en hjálpuðu hinum Norðurlöndunum. Þeir létu sig líka hverfa af varnarsvæðinu á einni nóttu þegar þeir töldu hagsmuni sína ríkari annars staðar. Nú sjá þeir eftir því og vilja snúa aftur. Eigum við bara að leggja rauðan dregil í boði Vinstri grænna og segja já takk og amen?
Með slíka vini þarf Ísland eiginlega enga óvini.