Verðskulduð fálkaorða dr. Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og eins forsvarsmanna Indefence-hópsins virðist hafa farið öfug ofan í ýmsa stuðningsmenn vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms og þá sem vildu að Ísland gengi í kjölfar hrunsins inn í Evrópusambandið.
Einkum virðast gamlir forystumenn hins margfræga Áfram-hóps með böggum hildar yfir orðuveitingunni og reyna veikum mætti að halda því fram að engu hafi skipt þótt forsetinn synjaði Icesave-lögum staðfestingar og vísaði til þjóðarinnar sem hafnaði þeim afgerandi.
Leiðari Harðar Ægissonar, viðskiptaritstjóra Fréttablaðsins, í gær virðist svo hafa ýft sárin enn frekar, eins og sjá má af skrifum Indriða Þorlákssonar, Vilhjálms Þorsteinssonar, Björns Vals Gíslasonar, Benedikt Jóhannessonar og Dagfara, sem er dulnefni Helga fjölmiðlakóngs Magnússonar, sem skrifar undir því heiti á vef sjónvarpsstöðvar sinnar, Hringbrautar.
Helgi er augljóslega eins ósammála Herði viðskiptaritstjóra sínum eins og hugsast getur. Hann leggur beinlínis til í pistli sínum að Samtök iðnaðarins reki Sigurð Hannesson fyrir að hafa fengið þessa fálkaorðu og taki þannig athyglina af samtökunum og formanni þeirra!
Út af fyrir sig er skiljanlegt að Áfram-hópurinn sé ekki hrifinn af því að horfa til baka þegar kemur að Icesave og ómetanlegri baráttu Indefence-hópsins. Auglýsingar Áfram eru löngu orðnar klassískar, en boðskapur þeirra var sá að sætta sig við að setja komandi kynslóðir í ævintýralegar skuldir til að ógna ekki viðskiptasamböndum og voninni um ESB-aðild, auk þess sem þetta væri allt svo mikið vesen að best væri að gefast bara upp strax.
Þáttur Ólafs Ragnars Grímssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Indefence-hópsins ásamt neyðarlögunum verður síst ofmetinn, hvað svo sem Áfram-menn segja nú tíu árum síðar. Þeir höfðu rangt fyrir sér þá og hafa enn rangt fyrir sér nú.
Allar bölsýnisspár þeirra féllu eins og spilaborg. Við urðum ekki Kúba Norðursins, það var áfram hægt að eiga hér alþjóðleg viðskipti og bankar störfuðu áfram. Í raun er viðsnúningur Íslands eftir hrun rannsóknarefni í alþjóðlegri hagfræði og aðdáunarefni um allan heim.
Þess vegna er gremja Áfram-hópsins kannski skiljanleg, en hún er fyrst og fremst kátbrosleg. Berin eru súr.