Afsökunarbeiðnin er löngu komin

Hr. Karl Sigurbjörnsson fv. biskup Íslands.

Umræðan um afstöðuna til samkynhneigðra og hjónabands fólks af sama kyni hefur vaknað að nýju eftir velheppnaða þætti Hrafnhildar Gunnarsdóttur um réttindabaráttu samkynhneigðra í Ríkissjónvarpinu undanfarin sunnudagskvöld. Nú síðast sagði leiðarahöfundur Fréttablaðsins mikilvægt að kirkjan biðji samkynhneigða afsökunar í blaði dagsins.

Sami leiðarahöfundur ætti ef til vill að byrja á því að fletta upp á gömlum Fréttablöðum, því hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, steig ákveðin skref í þessum efnum í samtali við blaðið fyrir níu árum, þar sem hann hvatti fólk til að horfa fram á veginn og taka höndum saman um stofnunina hjónabandið, í ljósi þess að Alþingi hefði breytt hjúskaparlögum og leyft hjónaband samkynhneigðra.

„Hann biðst fyrirgefningar vegna orða um hjónaband samkynhneigðra, sem hann lét falla árið 2006. Þá sagði hann að ef hjónabandið yrði ekki lengur skilgreint sem hjónaband karls og konu væri eitthvað nýtt orðið til og hið sígilda hjónaband „afnumið“. Hugtakinu væri þar með hent á sorphaugana.

„Orð mín í hita leiksins hafa valdið sárum og ég biðst fyrirgefningar á því,“ segir séra Karl Sigurbjörnsson. Mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan. „Þetta var tilvísun í að verið væri að gjörbreyta stofnun sem á sér mjög fornar rætur og skilgreiningu. Það var út af fyrir sig óheppilega orðað, eins og ýmsar athugasemdir sem falla í hita leiksins,“ segir biskup. Of mikið hafi verið gert úr þessum orðum sínum.

Í embættistíð sinni hefur Agnes Sigurðardóttir, eftirmaður Karls í embætti biskups, margoft ítrekað sömu skilaboð og það hafa stofnanir kirkjunnar á borð við Kirkjuþing einnig gert.

Á Íslandi búum við sem betur fer við mikið umburðarlyndi og frelsi þegar kemur að málefnum samkynhneigðra og réttindabaráttu þeirra. Íslenska þjóðkirkjan hefur gengið lengra í frjálsræðisátt og fyrr en flestar sambærilegar stofnanir í nágrannalöndunum. Svo langt raunar, að valdið hefur erfiðum deilum innan hennar.

Í þessu ljósi er orðið þreytt klisja og beinlínis ósanngjörn, að kirkjan eigi eftir að biðjast afsökunar og gera hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum. Það er auðvelt að stilla viðmiðum nútímans upp við löngu liðna tíð, en að sama skapi ódýrt og merkingarlaust.

Það er í tísku að sparka í kirkjuna og kenna henni og þjónum hennar um alla skapaða hluti, en í þessum efnum er mál að linni og að horft verði fram á veg en ekki endalaust í baksýnisspegilinn.