„Mikil umræða hefur skapast um þá ákvörðun Íslandsbanka að eiga ekki viðskipti við „karllæg“ fyrirtæki og fjölmiðla, nema þegar hentar að hafa af þeim háa vexti,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á fésbókinni.
„Margir halda að það hafi með jafnrétti að gera að jafn margir að hvoru kyni sé í hverri starfsstétt eða að allir fjölmiðlar hafi efni sem höfði jafnt til karla og kvenna. Flækjustigið mun auðvitað verða meira þegar kynin fara að skipta tugum, eins og stefnir í,“ bætir hann við.
„Ef jafnréttissjónarmið lægju að baki þessari ákvörðun bankans gilti sama um fyrirtæki þar sem konur væru í miklum meirihluta og fjölmiðlum sem fjallaði um efni sem höfðaði meira til kvenna. Svo er ekki og er því ákvörðun bankans venjuleg pólitísk rétthugsun.
Bankinn fær auðvitað klapp á bakið frá þeim sem telja þessa ákvörðun gagnast sér, persónulega eða pólitískt, en til lengri tíma eru ákvarðanir af þessu tagi hættulegar lýðræðinu og réttarríkinu, sérstaklega þegar stórfyrirtæki og ríkisvaldið eiga í hlut.
Í raun er þetta aðför að frjálsum fjölmiðlum og hinu frjálsa samfélagi. Slíkt hefur aldrei endað vel eins og sagan kennir okkur,“ segir Brynjar ennfremur.