Álíka fráleitt að fjarlægja listaverk eins og að brenna bækur

Stúlka með greiðu með Gunnlaug Blöndal. Stórkostlegt listaverk segja margir, en aðrir telja þetta dæmi um karllæga hlutgervingu kvenna.

„Það er álíka fráleitt að fjarlægja listaverk eins stórkostlegasta málara 20. aldarinnar, Gunnlaugs Blöndal, af vegg í opinberri stofnun eins og að brenna bækur eða fjargviðrast út af fyrirlesara á frjálsum markaði.,“ segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir mannréttindalögfræðingur á fésbók sinni í dag.

Dr. Herdís Þorgeirsdóttir.

Tilefnið er frétt í Fréttablaðinu í dag, þar sem segir að Seðlabankinn hafi tekið ákvörðun um að fjarlægja alfarið nektarmálverk eftir Gunnlaug Blöndal af veggum bankans. Hefur verkunum verið komið fyrir í geymslu.

Starfsmaður bankans hafði í kjölfar Metoo-byltingarinnar sl. sumar gert athugasemd við málverkið og sagði það særa blygðunarkennd sína. 

„Ákveðið var að þessi málverk yrðu ekki á almennum vinnusvæðum eða á skrifstofum yfirmanna, þ.e. á þeim svæðum þar sem almennir starfsmenn vinna eða þurfa að leita með erindi,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands, í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins um lyktir málsins.