„Það er álíka fráleitt að fjarlægja listaverk eins stórkostlegasta málara 20. aldarinnar, Gunnlaugs Blöndal, af vegg í opinberri stofnun eins og að brenna bækur eða fjargviðrast út af fyrirlesara á frjálsum markaði.,“ segir dr. Herdís Þorgeirsdóttir mannréttindalögfræðingur á fésbók sinni í dag.
Tilefnið er frétt í Fréttablaðinu í dag, þar sem segir að Seðlabankinn hafi tekið ákvörðun um að fjarlægja alfarið nektarmálverk eftir Gunnlaug Blöndal af veggum bankans. Hefur verkunum verið komið fyrir í geymslu.
Starfsmaður bankans hafði í kjölfar Metoo-byltingarinnar sl. sumar gert athugasemd við málverkið og sagði það særa blygðunarkennd sína.
„Ákveðið var að þessi málverk yrðu ekki á almennum vinnusvæðum eða á skrifstofum yfirmanna, þ.e. á þeim svæðum þar sem almennir starfsmenn vinna eða þurfa að leita með erindi,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabanka Íslands, í skriflegu svari við fyrirspurn blaðsins um lyktir málsins.