Píratar og einstakir kjörnir fulltrúar þeirra spara jafnan síst stóru orðin þegar kemur að umfjöllun um pólitíska andstæðinga. Eins og frægt er orðið, vefst jafnvel ekki fyrir þeim að bendla aðra við rökstuddan grun um fjárdrátt og skiptir engu þótt það hafi leitt til formlegrar niðurstöðu um brot á siðareglum Alþingis.
Siðareglurnar eiga nefnilega ekki við Píratana sjálfa.
Þetta varð endanlega ljóst við umræður á Alþingi í gær, þar sem ljóst varð að Píratar telja ekki að vanhæfisreglur eigi heldur við um þá, þegar þingmaðurinn Helgi Hrafn Gunnarsson steig í pontu og lenti í miklu orðaskaki við forseta Alþingis vegna kirkjujarðasamfélagsins.
Helgi Hrafn, sem er þekktur fyrir að ráðast á Þjóðkirkjuna hvenær sem tækifæri sem gefst og jafnvel oftar, sagði samning ríkisins um kirkjujarðirnar vera „óheiðarlegan og til skammar að taka ætti hann til meðferðar með svo stuttum fyrirvara og svo skömmu fyrir jólafrí.“
Ljóst væri að á svo skömmum tíma yrði ekki unnt að veita málinu tiltæka meðferð. Aðvífandi jól væru notuð sem kúgunartæki til að keyra málið áfram, eða eins og þingmaðurinn orðaði það svo smekklega:
„Jólin eru enn ein tilfinningalega kúgunin til að koma hagsmunum þjóðkirkjunnar að umfram aðra trúarsöfnuði í landinu.“
Talandi um aðra trúarsöfnuði, þá vill einmitt svo skemmtilega til, að eiginkona Helga Hrafns er forstöðumaður Siðmenntar og hefur verið áberandi athafnastjóri þess félagsskapar undanfarið.
Það þarf því ekki langskólanám í stjórnmála- eða stjórnsýslufræðum til að finna út að Helgi Hrafn er bullandi vanhæfur til að ræða þessi mál, hvað þá beita sér gegn umræddum samningum eða hafa áhyggjur af áhrifum þeirra á aðra trúarsöfnuði í landinu, svo notuð séu hans eigin orð.
En mun Helgi Hrafn átta sig á því?
Glætan.
Píratar taka á spillingu, vanhæfi og vilja beita siðareglum, en ekkert af þessu á þó við um þá sjálfa.
Eins og sést hefur rækilega í borgarstjórn undanfarin ár, fer ekki saman hljóð og mynd hjá Pírötum þegar þeir sjálfir komast að kjötkötlunum. Þá hafa þeir engar áhyggjur af spillingarmálum og taka þátt í að þagga þau niður eins og verseraður og eldgamall kerfisflokkur.
Það er ekki skrítið að allir upphaflegu Píratarnir séu löngu horfnir á braut…