Flestum ber saman um að alþingiskosningar séu á næsta leiti og verði ekki mikið seinna en í haust, enda ríkisstjórnarsamstarfið hálf lamað og forsætisráðherrann búinn að landa pakka fyrir nýja þjóðarsátt á vinnumarkaði. Það var reitur sem þurfti að haka í á verkefnalistanum.
Sjálfstæðismenn eru ekki mjög hrifnir af öllu í kjarapakkanum, enda ófjármagnaður og þingmenn flokksins og sveitarstjórnarmenn fela lítt gagnrýni sína. Í anda svokallaðrar Albaníu-aðferðar í stjórnmálum, beinist reiði bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins víða um land að formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, þegar hún ætti í reynd að beinast að forystu eigin flokks. Síðast þegar vitað var, situr Sjálfstæðisflokkurinn nefnilega í ríkisstjórn og varaformaður flokksins er fjármálaráðherra.
Til marks um hina stórfurðulegu stöðu í stjórnarsamstarfinu er færsla sem Sjálfstæðisflokkurinn birti á samfélagsmiðlum í gær og greiddi kostun fyrir. Þingmaður sem Viljinn ræddi við, sagði að þessi færsla væri fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir flokkinn sjálfan, enda væri hann að tryggja að hann fái ekkert kredit fyrir kjarasamningana, en sitji uppi með skammirnar og standi fyrir þeim sjálfur.
„Erum við farin að auglýsa sérstaklega að Katrín Jakobsdóttir hafi ráðið öllu sem hún vill og við kyngt öllu saman,“ spurði þessi sami þingmaður og skal engan undra.
Þá er Vef-Þjóðviljinn vaknaður aftur til lífsins á Andríki. Í vikunni birtist þar færsla sem sýnir svart á hvítu að útlendingavandinn sem blasir nú við er fyrst og fremst á ábyrgð sitjandi ríkisstjórnar og að auki hefur vefurinn nú birt sannkallaða breiðsíðu um Vinstri græna, þar sem flokknum og forystu hans, eru vægast sagt ekki vandaðar kveðjurnar.
Sú færsla birtist nú einmitt kostuð á samfélagsmiðlum, svo ljóst er að eitthvað mikið stendur til. Enda formaður Framsóknar farinn að máta forsætisráðherrastólinn og blikkar um leið til vinstri.
Hvað skyldi eiginlega ganga á í Valhöll?