Andstaðan skipulögð af ábyrgðarlausum forréttindahópum

Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS og dálkahöfundur á Fréttablaðinu.

„Það sem einkennir flesta helstu forsprakkanna í stríðinu gegn frjálsum viðskiptum, friðsælli alþjóðasamvinnu og almennum mannréttindum er að þeir búa við þann ágæta munað að þurfa ekki á nokkurn hátt að deila afleiðingum upplausnarinnar með meðborgurum sínum,“ segir Þórlindur Kjartansson, fv. formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag.

Hann segir að hér á landi sé andstaða við frjálsa verslun, alþjóðlega samvinnu og mannréttindi líka skipulögð af ábyrgðarlausum forréttindahópum sem hvorki munu þurfa að leysa úr né súpa seyðið af afleiðingum þess ef farið verður að kröfum þeirra.

„Hinn óheiðarlegi málflutningur gegn þriðja orkupakkanum er lítt dulin átylla. Þessi hópur vill Ísland út úr EES (og líklega undan Mannréttindadómstólnum og fleiri góðum alþjóðlegum stofnunum líka). Og þvælan er hrópuð kinnroðalaust þótt málflutningurinn að mestu sé innfluttur frá Noregi, eina landinu sem Ísland hefur framselt fullveldi sitt sjálfviljugt til,“ segir hann.

Mikið gert til að sefa óþarfa taugaveiklun

Þórlindur segir að mikið hafi verið gert til að svara eðlilegum spurningum og „sefa óþarfa taugaveiklun út af þriðja orkupakkanum“. Í þeirri viðleitni hafi verið komið fram „af umtalsvert meiri nærgætni og kurteisi heldur en málflutningur þeirra æstustu gefur tilefni til“. Ekkert af því dugi til,  því þessi „þröngi hópur virðist einfaldlega hafa misst trúna á því að Ísland eigi raunverulegt erindi í stjórnmálum, viðskiptum og menningu sem þjóð meðal þjóða.“

Og hann sendir út ákall í pistli sínum til stuðningsmanna orkupakkans:

„Þeir sem ekki vilja horfa upp á enn meiri skaða af þessum óvandaða málflutningi verða að grípa til varna fyrir þá miklu hagsmuni sem Ísland hefur af frjálsum viðskiptum, alþjóðlegu samstarfi og mannréttindum.

Ef það bregst, og afturhaldsfólkinu tekst að einangra Ísland, og einhver spyr síðar: „Hvernig gat þetta gerst“—þá er svarið: Þetta gat gerst af því að skynsamt fólk nennti ekki að leggja á sig þau óþægindi sem þurfti til að berjast gegn bábiljunni og þeir sem áttu að standa saman um stóra hagsmuni létu þess í stað dægurþras sundra sér. Þannig vinnur vitleysan.“