„Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst með minna fylgi en nú í Þjóðarpúlsi Gallup – síðan þær mælingar hófust fyrir meira en 30 árum. Á sama tíma er formaður flokksins að nálgast einhverskonar Íslandsmet í vantrausti og óvinsældum í mælingum Maskínu. Formaðurinn er þó sallarólegur með þetta og segir lítið að marka þessar kannanir,“ segir Páll Magnússon, fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins og útvarpsstjóri.
Hann vísar til þeirra ummæla Bjarna Benediktssonar formanns flokksins og utanríkisráðherra, að andstæðingar sínir voni örugglega að hann hætti og segir:
„Þetta er líklega rangt mat. Miðað við hve fylgið sópast nú hratt af flokknum er þvert á móti sennilegt að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins voni að formaðurinn hætti alls ekki – heldur sitji sem lengst. Gamla kennisetningin er að ef andstæðingurinn er kála sér sjálfur skaltu láta hann í friði.
(Einn gamall og harðkjarna Sjálfstæðismaður spurði mig í tilefni af sendiherrabixinu um daginn: ‘’Þurfum við alltaf að vera að rétta bæði málningarfötu og pensil upp í hendurnar á þeim sem vilja útmála flokkinn sem spilltan og klíkustýrðan?’’)
Ofan á þetta bætist svo að tvö umdeildustu málin sem heyra undir Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn og hafa gert lengi, orkumálin og útlendingamálin, eru í hreinum ólestri.
Það er stundum sagt að flokkar þurfi alltaf að vera reiðubúnir í kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líklega aldrei í sögu sinni verið jafn illa undir þær búinn og einmitt núna.“