Eitt mikilsverðasta innleggið í alveg stórfurðulega kosningabaráttu leit dagsins í ljós í gær og kom alls ekkert frá stjórnmálamanni. Þar sýndi Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fram á í pistli á vef samtakanna hvernig umræðu um tekjuskatt einstaklinga í aðdraganda kosninga hefur verið snúið á haus.
„Lágtekjufólk býr ekki við háa skattbyrði, enda á það ekki að gera það. Þeir sem hærra standa í tekjustiganum skila sannarlega sínu til samfélagsins og búa við mun hærri skattbyrði, hvort sem talið er í prósentum eða krónum. Það blasir við að tekjuskattskerfið á Íslandi er öflugt við að jafna kjör í landinu og virkar feikivel í þeim tilgangi,“ segir Halldór og bendir á að tekjuskatta verði að skoða í samhengi við heildartekjur og vaxta- og barnabætur og aðrar tekjutilfærslur ríkisins.
„Tekjuskattsgreiðslur, að frádregnum vaxta- og barnabótum, leiða í ljós mikil jöfnunaráhrif skattkerfisins. Tekjuhæstu 10% framteljenda greiða um 50% af öllum tekjuskatti til samneyslu og fjárfestinga ríkisins. Næstu 10% greiða 22% alls tekjuskatts. Lægstu fimm tekjutíundirnar, sem eru framteljendur með heildartekjur, að undanskildum fjármagntekjum, undir 490 þúsund krónum á mánuði, greiða 1% af öllum tekjuskatti. Tekjujöfnunaráhrif skattkerfisins eru þannig miklu meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir.
Á það hefur verið bent að upp úr 1990 hafi lægstu laun verið skattfrjáls. Þá voru lágmarkslaun töluvert lægri en nú. Á árinu 1992 voru lágmarkslaun 133 þúsund krónur á mánuði á verðlagi dagsins í dag en eru nú 351 þúsund krónur á mánuði, eða næstum þrefalt hærri. Bætt lífskjör hafa leitt til þess að á síðustu þremur áratugum hefur framteljendum, sem greiða tekjuskatt, fjölgað hlutfallslega. Það er heilbrigðismerki að fleiri launamenn geti tekið þátt í fjármögnun samneyslunnar,“ segir hann.
Halldór Benjamín sýnir með rökum að yfirlýsingar ýmissa framboða og stjórnmálamanna um óréttlæti kerfisins séu ekki á rökum reistar og hann reyndar heldur því beinlínis fram að þeim sé ætlað rugla fólk í ríminu og skapa glundroða.
„Á Íslandi eru greidd há laun og næstum hvergi er tekjujöfnuður meiri. Almenn samstaða er um að styðja við þau sem hafa minnst milli handanna og byggir skattkerfið á því að skattbyrði aukist með hærri launum og auknum kaupmætti,“ segir hann og bætir við: „Mikilvægt er að allar tillögur um skattkerfisbreytingar, stórar sem smáar, séu settar í tölulegt samhengi. Tekjur ríkissjóðs myndu skerðast um 162 milljarða króna ef lágmarkslaun yrðu gerð skattfrjáls, líkt og var um skamma hríð fyrir þremur áratugum. Það svarar til um 80% af öllum tekjuskattgreiðslum einstaklinga til ríkisins. Slík skattalækkun er óraunhæf því tekjutap ríkisins yrði tæpast bætt upp í tekjuskattkerfinu án gífurlegra skattahækkana, nema stefnt sé að samsvarandi niðurskurði samneyslunnar sem raunar enginn hefur lagt til.
Ósannindi verða ekki sannleikur þótt þau séu endurtekin. Staðreyndir málsins eru þessar:
Á Íslandi eru greidd ein hæstu lágmarks- og meðallaun í heimi. Báðar stærðir eru leiðréttar fyrir kaupmætti og taka þannig tillit til hás framfærslukostnaðar á Íslandi. Auk þess hefur tekjujöfnuður aukist á undanförnum 15 árum. Hér ríkir einn mesti tekjujöfnuður í heimi. Ísland er með næstmesta tekjujöfnuð í Evrópu að teknu tilliti til jöfnunaráhrifa skattkerfa. Hin Norðurlöndin skipa 5.-11. sæti í þessum samanburði.“
Þessir punktar framkvæmdastjórans þyrftu að komast fyrir augu sem allra flestra fyrir kosningarnar á morgun. Óskiljanlegt er að hægri- og miðflokkar hafi ekki svarað betur fyrir sig að þessu leytinu til í kosningaumræðunni. Það er nefnilega rétt, sem Halldór Benjamín segir, að byggja verði á staðreyndum þegar tekist er á um efnahags- og skattamál.