Árni Bald spyr: Hversu heimskulegt er þetta?

Veiðiréttarhafinn Árni Baldursson, eða Árni Bald eins og flestir kalla hann, skrifar athyglisverða hugleiðingu á fésbókarsíðu sína um helgina og veltir fyrir sér tvískinnungi í smitvörnum þegar kemur að veiðimönnum annars vegar og fiskeldisfyrirtækjunum hins vegar.

Hann bendir á að þegar veiðimenn koma til landsins þurfi þeir að láta sótthreinsa allan sinn veiðibúnað við komuna til landsins.

„Allt skal sótthreinsað samviskusamlega og i smáatriðum, vöðlur, stangir, hjól, línur og flugur, þetta er algerlega besta mál að öllu leyti. En á sama tíma er flutt inn i milljónavís og sturtað ofaní hreina íslenska náttúru hrognum af norskum eldislaxi sem að hluta drepst i sjókvíunum eða sleppur út í íslenska náttúru, það sem eftir lifir er slátrað og flutt erlendis,“ segir hann.

Árni bendir á að norsk ósótthreinsuð risasláturskip komi inn á firðina, slátri fiskinum og flytji út en á sama tíma sé hann að láta sótthreina litlu veiðiflugurnar sínar á Keflavíkurflugvelli.

„Hversu heimskulegt er þetta?“ spyr Árni Bald. Hann rifjar upp að Kári Stefánsson hafi orðað það svo að erfðafræðilega séu Íslendingar ekki jafn gáfaðir og aðrar þjóðir, líklega hafi hann rétt fyrir sér.