Viðræður stjórnarflokkanna um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf þokast áfram og ekkert er komið upp sem gerir ólíklegt að samstarfið verði framlengt með formlegum hætti. Eina sem er ákveðið –– eða gengið út frá –– er að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra, en að öðru leyti er allt opið og margar hugmyndir verið ræddar í viðræðunum, enda þótt málefnasamningur sé efstur á blaði og nokkur þraut að samræma þar ólíka sýn og ólíkar áherslur þriggja flokka með þrjú ólík baklönd.
Kjósendur vildu enga byltingu eða kollsteypu, svo mikið er víst. Þeir flokkar sem töluðu fyrir mestum breytingum hlutu ekki brautargengi og kjósendur virtust velja stöðugleika fremur en óvissuferðir. Kannski skiptir faraldurinn þar máli; við erum öll að koma út úr mikilli raun sem enn sér vart fyrir endann á, þótt almennar bólusetningar bendi til þess að það versta sé að baki.
Ríkisstjórnin naut þess vafalaust að hafa staðið af sér áhlaupið í faraldrinum. Stjórnarflokkarnir nutu góðs af endalausum blaðamannafundum, oft í beinni útsendingu, og það er margt til í því sem stjórnarandstaðan segir, að hefðbundin stjórnmál hafi verið sett til hliðar í hálft annað ár.
En svo tekur veruleikinn við og verkefni framtíðarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á að fá heilbrigðisráðuneytið í nýrri útgáfu af þessari ríkisstjórn og raunar hafa heyrst hugmyndir um að þeir vilji umhverfisráðuneytið sömuleiðis. Ólíklegt er að báðar þessar óskir rætist, en sagt er að forystukonurnar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, komi báðar til greina sem arftakar Svandísar Svavarsdóttur sem heilbrigðisráðherra.
Yrði sú raunin, að Guðmundur Ingi Guðbrandsson verði áfram umhverfisráðherra er næsta víst að stokkað verði upp í ráðuneytinu og ýmis verkefni færð þaðan, jafnvel skipulags- og byggingamál í nýtt innviðaráðuneyti, sem er sérstakt áhugamál formanns Framsóknarflokksins.
Hvað verður þá um Svandísi Svavarsdóttur? Gæti hún tekið að sér dómsmálin, málaflokk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur oftast með höndum? Það gæti orðið athyglisvert útspil…