Ásmundur Einar tekur áhættu

Nú þegar styttist óðum í haustkosningar eru stjórnmálaflokkarnir í óða önn að stilla upp á framboðslistana með ýmsum aðferðum. Píratar og Samfylkingin hafa ýtt tryggu og reynslumiklu fólki út fyrir flokkaflakkara, en hjá Framsóknarflokknum vekur mesta athygli sú ákvörðun Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, að færa sig um set úr hinu örugga Norðvesturkjördæmi yfir til Reykjavíkur þar sem óvíst er um þingsæti að kosningum loknum.

Sagt er að flutningurinn komi til af tvennu. Einhver vík sé milli vina þar sem eru ráðherrann og kaupfélagsstjórinn Þórólfur Gíslason á Sauðárkróki og flutningur í annað kjördæmi komi til af því, en einnig hitt að góður árangur Framsóknarflokksins í kosningunum og möguleg áframhaldandi seta flokksins í ríkisstjórn helgist af því hvernig til tekst í þéttbýlinu, þar sem flest atkvæði er að fá.

Í undanförnum skoðanakönnunum hefur Framsóknarflokkurinn vart eða ekki mælst með mann inni í borginni, þótt fylgið hafi almennt verið á uppleið og staðan í nokkrum landsbyggðarkjördæmum giska góð. Lilja D. Alfreðsdóttir er í margvíslegum mótbyr, en Ásmundur Einar hefur hins vegar komið sterkur út úr sínu ráðherraembætti undanfarið, auk þess sem persónulegar reynslusögur hans í fjölmiðlum hafa vakið aðdáun margra.

Þau Lilja og Ásmundur Einar munu að óbreyttu skipa sitt hvort forystusætið hjá framsókn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og segja má að þar sé forysta flokksins til framtíðar lögð undir. Takist vel til, gæti flokkurinn unnið óvæntan sigur í komandi kosningum. Takist illa til, eru tveir af líklegustu framtíðarforingjum flokksins fallnir fyrir borð, hvorki meira né minna.

Þetta gætu því orðið sögulegar kosningar.