Augljós hagræðing fer forgörðum

Með nýlegri auglýsingu dómsmálaráðuneytisins í Lögbirtingarblaðinu um laust embætti dómara við Hæstarétt Íslands til umsóknar, fór forgörðum augljóst tækifæri Sjálfstæðisflokksins og Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra til hagræðingar.

Í lögmannastétt hafa margir lengi furðað sig á fjölda dómara við Hæstarétt, í ljósi þess að dómskerfið var endurskipulagt með tilkomu Landsréttar. Hugmyndin var að fyrir Hæstarétti yrðu færri mál og helst aðeins fordæmisgefandi og þau ættu allir dómarar við réttinn að dæma.

Við ríkisstjórninni blasir risavaxið verkefni að fjármagna endalausa aukningu ríkisútgjalda og töluverð hagræðing fælist í fækkun dómara. En með því að alltaf er skipaður nýr dómari í stað þeirra sem hætta, fara svo augljós tækifæri forgörðum.

Skipað verður í embættið frá og með 1. ágúst 2024. Umsóknarfrestur rann út 18. mars síðastliðinn og eru umsækjendur eftirtaldir:

Aðalsteinn E. Jónasson dómari við Landsrétt,

Eyvindur G. Gunnarsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands,

Ingibjörg Þorsteinsdóttir dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur,

Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis.

Umsóknir hafa verið afhentar dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara til meðferðar.