Innkoma Arnars Þór Jónssonar héraðsdómara inn á leikvöll stjórnmálanna hefur vakið mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem fulltrúi dómsvaldsins stígur slíkt skref.
Jón Þórisson, lögmaður og ritstjóri Fréttablaðsins, er ekki hrifinn af því framtaki dómarans að segja sig ekki um leið frá dómarastörfum og bendir á í leiðara blaðsins á dögunum, að þrígreining ríkisvalds sé mjög þýðingarmikil og raunar grundvöllur stjórnskipunarinnar.
„Því er verið að rekja þetta að nú hefur héraðsdómari einn ákveðið að gefa kost á sér í prófkjöri stjórnmálaflokks með það fyrir augum að verða á framboðslista hans í komandi alþingiskosningum. Það er fremur sjaldgæf staða og gefur tilefni til að staldra við og íhuga hvað það í reynd þýðir þegar maður með dómsvald hyggst láta reyna á fylgi sitt og freista þess að komast á þing,“ segir Jón í leiðaranum og bætir svo við heldur óvenjulegri pillu: Nú bendir reyndar margt til þess að það muni honum ekki takast en það er aukaatriði í málinu.“
Sannarlega er ekki algengt að einstakir frambjóðendur í prófkjörum stjórnmálaflokkanna fái slíka spádóma um sig í leiðurum íslenskra dagblaða, en Jón gengur lengra og segist beinlínis amast við skrifum dómarans um samfélagsmál.
„Það er ástæða til að amast við þessum skrifum dómarans. Auðvitað hefur hann rétt til að tjá sig en þegar hann sóttist eftir dómaraembætti vissi hann eða mátti vita að embættisfærslan setti honum skorður og takmarkaði frelsi hans. Þátttaka dómarans í umræðu um samfélagsmálefni hefur bent til að hann hefði í hyggju að láta frekar til sín taka á þeim vettvangi. Áformin um prófkjörsframboð komu því ekki alls kostar á óvart.
Haft hefur verið eftir dómaranum að hann hyggist fara í leyfi á meðan á framboðinu stendur. Ekki er að skilja annað en að hljóti hann ekki viðunandi framgöngu í baráttunni um sæti á lista muni hann snúa úr leyfinu og taka til við að dæma á ný.
Þetta er ófært. Dómarinn verður að gera upp við sig hvort hann vill búa til lög eða dæma eftir þeim. Undir hann sem dómara verða borin álitaefni og við megum ekki við því að tilefni sé gefið til að efast um óhlutdrægni hans, hvort sem það er undir rekstri máls fyrir dómi, eða þegar niðurstaða er fengin,“ segir ritstjórinn ennfremur.
Ekki er að sjá að Arnar Þór hafi miklar áhyggjur af þessum leiðaraskrifum Fréttablaðsins, alltént heldur hann prófkjörsbaráttu sinni af fullum krafti áfram þessa dagana. Sagt er að árangur hans verði ákveðinn mæling á raunverulegum styrk andstæðinga orkupakka þrjú innan Sjálfstæðisflokksins og hve stór hluti flokksmanna er ósáttur við framgöngu flokksins í þeim málum.