„Í upphafi tókum við þessu öll sem alvarlegri farsótt. Í október bauluðum við á þessi samtök. Í dag er að koma betur og betur í ljós að þau fara með rétt mál. Fjöldi radda um allan heim taka undir það. Þetta er slæm pest sem nýtir sér D-vítamín skort,“ segir Þröstur Jónsson bæjarfulltrúi í Miðflokksins í Múlaþingi, í færslu sem hann birtir á fésbókinni.
Þröstur deilir þar frétt á vegum samtakanna „World Doctors Alliance“ þar sem lítið er gert úr hættunni af COVID-19 og því ranglega haldið fram að um heimsfaraldur sé að ræða. Staðreyndavakt AFP hefur sett saman yfirlit yfir falsfréttir samtakanna og þær villandi upplýsingar sem þau setja fram í opinberri umræðu.
Þröstur segir í færslu sinni, að lyf svo sem Ivermectin og jafnvel Hydroxicloricen geri pestina að engu. „Gallinn er bara sá að stjórnvöld/World Economic Forum og WHO, halda þessum lyfjum frá okkur til að viðhalda skelfingu og eyðileggja samfélög okkar, svo framkvæma megi hið illa Global Reset. Við erum ekki einu sinni frædd um áhrif D-vítamín skorts,“ segir hann ennfremur og sakar Lyfjastofnun um „furðulegan hræðsluáróður gegn Ivermectin“ á heimasíðu sinni eftir að þrýstingur myndaðist á að leyfa lyfið hér á landi.
Þröstur kallar COVID-19 að lokum „kínavírusinn“ og bætir við: „Þetta er ekki pandemic. Þetta er satanic plandemic.“ Með þessu tekur hann undir samsæriskenningar öfgahreyfingarinnar QAnon í Bandaríkjunum sem hefur tengt viðbúnað ríkja heims vegna faraldursins við satanískt samsæri sem miði að heimsyfirráðum tiltekinna afla, svonefndra glóbalista, og eru meintir sökudólgar í því samsæri aðilar á borð við Bill Gates, stofnanda Microsoft.
Óþarft er að taka fram, en Viljinn gerir það nú samt, að ekkert hefur komið fram, sem styður slíkar fullyrðingar.