Bæjarmálavefnum í Búðardal lokað í mótmælaskyni

Bæjarmálavefnum budardalur.is hefur verið lokað í mótmælaskyni við þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar í gær að breyta landnotkun tveggja jarða úr landbúnaðarjörð í iðnaðarsvæði. Um er að ræða jörðina Hróðnýjarstaði í eigu Storm Orku og Sólheima sem er í eigu Daða Einarssonar, föður Ásmundar Einars félagsmálaráðherra.

Áform hafa verið uppi um stórfellda uppbyggingu vindorkuvera á þessu svæði og sýnist sitt hverjum um það meðal heimamanna. Forsvarsmenn vefsins budardalur.is segjast loka honum í mótmælaskyni, en síðunni hafa þeir haldið út síðan 2011, safnað þar saman ljósmyndum, fréttum og viðtölum til að halda í söguna fyrir Dalabyggð.

„En nú fékk ég nóg,“ segir Sigurður Sigurbjörnsson ritstjóri í samtali við Viljann. Hann hefur haldið vefnum úti í félagi við Þorgeir Ástvaldsson undanfarin ár.