Bakslag yrði líka skellur fyrir geðheilbrigðiskerfið

Sr. Hildur Eir Bolladóttir.

„Ég hef smá áhyggjur af því að ef bakslag verður í veirufaraldri og landsmenn fara aftur í sóttkví í sumar og sundstaðir loka, þá muni það ekki bara verða skellur fyrir ferðaþjónustuna heldur geðheilbrigðiskerfið.“

Þetta segir Sr. Hildur Eir Bolladóttir á fésbókinni, en lífleg umræða hefur verið á samskiptamiðlum undanfarið um kosti þess og galla að opna landið fyrir ferðamönnum með tilheyrandi smithættu.

Hildur Eir bendir á vandann sem fylgi því ef Íslendingar fari inn í næsta vetur „án þess að hafa notið sumars, hundaskítshvít í framan og höfum aðeins notið náttúrunnar í bakgarðinum okkar.“

Og hún bætir við:

„Ég skil og virði klemmuna sem stjórnvöld standa frammi fyrir en held hins vegar að þegar öllu er á botninn hvolft þá gæti þetta orðið sumarið sem landsmenn eyða Tenerife sjóðnum í íslensk hótel, veitingahús og afþreyingu.“