Baldur sækir á styrkleikum sínum með öflugu framboði

Dr. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði og sérfræðingur í þróun smáríkja, hefur stimplað sig vel inn í baráttuna fyrir komandi forsetakosningar með vel heppnaðri herferð undir kjörorðinu Baldur & Felix, þar sem aukatrompið er vitaskuld eiginmaðurinn, söngvarinn og leikarinn Felix Bergsson.

Einhverjir hafa látið það fara ofurlítið í taugarnar á sér, að framboðið auglýsi tvo fyrir einn, þar sem aðeins einn getur verið í kjöri, en kostirnir við dúettinn eru miklu fleiri en gallarnir og margt af því skemmtilegasta í kosningabaráttunni hingað til er að finna hjá þeim félögum. Það er vel gert.

Sama á við um þá staðreynd að Baldur er samkynhneigður. Einhverjir fetta sjálfsagt fingur út í það, en það er pínulítill minnihluti sem ekki skiptir máli í stóra samhenginu. Flest af því dæmir sig bara sjálft. Framboð þeirra félaga ætti að keyra á fjölbreytileikanum og nýta það sem styrkleika, að sögulegt yrði að samkynhneigður maður yrði kjörinn forseti Íslands.

Sagt er að framboð Baldurs og Felix litist um of af pólitískum rétttrúnaði og litlu umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra. Á stuðningsmannasíðunni eru margir til að mynda ósáttir við að þeirra maður hafi farið í hlaðvarp til Frosta Logasonar. Mikilvægt er að tækla slíkar raddir, því fátt er minna í tísku um þessar mundir en slaufun eða woke og bóndinn á Bessastöðum á að vera forseti allra. Jafnsjálfsagt er að þeir félagar nýti hvert tækifæri til að vekja athygli á minnihlutahópum og réttindum þeirra. Annað væri nú.

Styrkleiki Baldurs ætti að felast í yfirgripsmikilli þekkingu á stjórnkerfinu, stjórnskipaninni og stjórnmálum almennt. Hann á að sækja á því að hafa bæði verið í Vöku sem stúdent í gamla daga og varaþingmaður Samfylkingarinnar á fullorðinsárum. Það bendir til víðsýni og að hann geti höfðað til ólíkra hópa.

Í spjalli við Stefán Einar Stefánsson í Spursmálum á Mbl um daginn, gerði hann ákveðin mistök með því að segjast ekki muna hvað hann kaus í þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave. Svör hans komu á óvart, því hann var þekktur fylgismaður samningaleiðarinnar og átti sannarlega að eiga von á slíkri spurningu. Stuðningsmenn hans hafa verið óþarflega viðkvæmir fyrir eðlilegri umfjöllun um þessi ummæli.

Allir frambjóðendur munu þó misstíga sig eitthvað í kosningabaráttunni og það er enn langt til kosninga. Sagt er að hluti hinnar rómuðu kosningamaskínu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar vinni nú baki brotnu við að koma Baldri á Bessastaði og munar um minna.

Næstu daga þurfa Baldur og hans fólk að halda sínu striki og láta ekki skoðanakannanir hafa of mikil áhrif á sig. Hvort sem þær eru hagfelldar eður ei. Galdurinn er að halda sókninni, toppa ekki of snemma og mæta léttur og öruggur á hvern þann vettvang sem býðst. Tala við eins marga og hægt er, láta sjá sig og vera með fólkinu í landinu.

Því það er fólkið sem velur forsetann. Og Baldur Þórhallsson á prýðilega möguleika á því að ná kjöri, ef marka má kannanir og fylgja þannig fordæmi Ólafs Ragnars Grímssonar, annars stjórnmálafræðiprófessors. Ekki væri leiðum að líkjast.

Viljinn mun næstu daga rýna í stöðu og möguleika efstu frambjóðenda, skv. skoðanakönnunum til forseta Íslands. Áður hefur verið fjallað um Katrínu Jakobsdóttur (sjá tengil hér að neðan) og næst verður sjónum beint að Jóni Gnarr.