Ekki fer á milli mála að áform Bandaríkjamanna um endurkomu herliðs hingað til lands, í einni eða annarri mynd, og aukna hernaðaruppbyggingu hér á landi og á norðurslóðum hefur sett Vinstri græna, flokk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í snúna stöðu.
Stjórnmálaforingjar úr öllum öðrum flokkum, sem Viljinn ræddi við í gærkvöldi eftir heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands, segja það gráglettni örlaganna að Kaninn vilji snúa aftur á vakt Vinstri grænna, sem hingað til hafi fremur viljað skipuleggja Keflavíkurgöngur en leggja út rauða dregilinn fyrir bandarískt herlið.
Forsætisráðherra, fundaði með varaforsetanum í gærkvöldi í húsnæði Landhelgisgæslunnar á Suðurnesjum skömmu eftir að Katrín kom til landsins frá Svíþjóð og Danmörku.
Á fundinum var rætt um tvíhliða samstarf ríkjanna, öryggis- og varnarmál og viðskipta- og efnahagsmál. Það er opinbera dagskrá fundarins. Í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins en jafnframt sérstaklega vikið að því að Katrín hafi rætt um málefni Norðurslóða, umhverfismál og jafnréttismál.
En samt vita allir að varaforsetinn var ekki kominn hingað til lands með hundruða manna fylgdarlið til þess að ræða jafnréttismál.
„Ég ræddi loftslagsvána sérstaklega á fundi okkar, ekki síst á Norðurslóðum. Ég lagði áherslu á samvinnu innan Norðurskautsráðsins og annarra alþjóðlegra stofnana og mikilvægi þess að grípa til aðgerða gegn loftslagsbreytingum. Ég benti á að loftslagsmál og mannréttindamál eru hvort tveggja lykilmálefni fyrir ríkisstjórn Íslands, og ræddi sérstaklega kynjajafnrétti í því samhengi,“ segir Katrín á vef ráðuneytisins.
Viljinn hefur heimildir fyrir því að fulltrúar margra flokka í utanríkismálanefnd Alþingis ætli ekki að láta forsætisráðherra sleppa svo auðveldlega frá þessu máli. Raunverulegt erindi varaforsetans þurfi að ræða í utanríkismálanefnd og helst fyrir opnum tjöldum.
Allt hægt í pólitík
Gera þeir einmitt ráð fyrir því að það vilji Katrín Jakobsdóttir alls ekki, því bakland hennar í Vinstri grænum gæti átt mjög erfitt með það.
„Við ræddum um öryggis- og varnarmál og þá uppbyggingu sem nú stendur yfir á öryggissvæði Landhelgisgæslunnar á Suðurnesjum. Ég fór yfir þjóðaröryggisstefnu Íslands og gerði grein fyrir því að ef til frekari uppbyggingar kæmi þyrftu slík áform að hljóta lýðræðislega og gagnsæja umræðu á Íslandi. Þá áréttaði ég þá stefnu Íslands að sporna gegn vígvæðingu á Norðurslóðum,“ bætti forsætisráðherra við í tilkynningu.
Einn leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem Viljinn ræddi við, sagði í léttum dúr að hann hefði fyrst í gær áttað sig á því að Keflavíkurgöngur Vinstri grænna væru til þess að bjóða herinn velkominn til landsins, ekki að mótmæla honum. Þetta sýndi í eitt skipti fyrir öll, að allt sé hægt í pólitík.