Bankarnir þurfa að spila með, ágæti seðlabankastjóri

Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri virtist leggja mikið á sig til að róa markaðinn og atvinnulífið á kynningarfundi Peningastefnunefndar í morgun, þar sem hann rökstuddi vaxtalækkun aðra vikuna í röð og afnám sveiflujöfnunaraukans sem hann segir að eigi að geta aukið útlán bankakerfisins til heimila og fyrirtækja um allt að 350 milljarða króna.

„Við erum rétt að byrja,“ sagði seðlabankastjórinn og benti á að frekari aðgerðir væru í farvatninu til þess að bregðast við efnahagsáfallinu af völdum Kórónaveirunnar. Seðlabanki Íslands væri varla byrjaður á ýmsum þeim aðgerðum sem erlendir seðlabankar hefðu kynnt undanfarna daga til að koma í veg fyrir djúpa heimskreppu.

Það er ekki bara vel til fundið hjá Seðlabankanum að grípa til slíkra aðgerða, heldur auðvitað bráðnauðsynlegt. En hann þarf þá að gæta þess að súrefni upp á hundruð milljarða inn í bankakerfið skili sér til fyrirtækjanna og heimilanna — eins og til er ætlast.

Viljinn hefur í dag heyrt nokkur dæmi um framkvæmdastjóra og fjármálastjóra sem leituðu til síns viðskiptabanka eftir útspil Seðlabankans og óskuðu eftir fyrirgreiðslu í ljósi skyndilegs tekjutaps. Enginn þeirra fékk jákvæð svör um aðstoð.

Eitt dæmið var af litlu og ágætu fyrirtæki í ferðaþjónustu sem er skuldlítið og með jákvæða afkomu í fyrra og á fyrsta mánuði þessa árs. Skiljanlega hefur það mátt horfa á hrinu afbókana frá og með byrjun febrúar. Svarið við beiðni um nokkurra milljóna hækkun yfirdráttarheimildar var: „Við þurfum auknar tryggingar.“

Málið er bara að fæst fyrirtæki og hvað þá einstaklingar eiga kost á því að koma með auknar tryggingar við þær aðstæður sem upp eru komnar. Og ef þetta á að vera viðkvæðið hjá bönkunum að horfa algjörlega fram hjá heilbrigðum rekstri en kalla þess í stað eingöngu eftir auknum veðum, eru þeir ekki að taka slaginn með viðskiptavinum sínum gegnum storminn, heldur einungis að líta eftir eigin hag og engu öðru.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra verða því að nota tækifærið — eigi aðstoð við fyrirtækin í landinu að fara gegnum bankakerfið — og tryggja það að hjálpin fari þangað sem hennar er þörf.

Þannig björgum við störfum og tryggjum lífsafkomu fólks. Þannig höfum við meira tækifæri til viðspyrnu en ella.

Nema ætlunin hafi bara verið að bjarga bankakerfinu, enn einn ganginn.

Það getur bara ekki verið.