Beðið eftir upplýsingum um útstrikanir

Óvissan um kosningaúrslitin í Norðvesturkjördæmi veldur margvíslegum hliðaráhrifum. Tíu frambjóðendur virðast enn hafa væntingar um að fylla fimm þingsæti, allt eftir því hvort miðað er við útgefnar lokatölur sl. sunnudagsmorgun eða leiðréttar tölur síðdegis sama dag.

Líklegt má telja að landskjörstjórn velji þann kost að miða við seinni tölurnar á fundi sínum í dag, enda þótt hún hafi sjálf upplýst að ófullnægjandi upplýsingar hafi borist frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis. Með því að gefa út kjörbréf flyst boltinn til nýs Alþingis, sem þarf þá að hefja eigin rannsókn á málinu í samræmi við stjórnarskrána.

Öll þessi óvissa er fordæmalaus og fyrir vikið hverfa önnur forvitnileg álitaefni í skuggann. Til dæmis hefur enn ekkert frést af útstrikunum kjósenda á einstökum frambjóðendum í kjördæmunum.

Viljinn leitaði til landskjörstjórnar í vikunni og innti eftir þessum upplýsingum, en fékk þau svör að ekkert verði gefið upp í þessum efnum fyrr en eftir fundinn kl. 16 í dag, þar sem til stendur að freista þess að gefa út 63 kjörbréf til nýrra alþingismanna.

Einhverjir kunna að bíða spenntir.