Bergþór stríddi sjálfstæðismönnum: Tekið við nýskráningum í Miðflokkinn allan sólarhringinn

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins.

Óhætt er að segja að Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, hafi stolið svolítið senunni, tekið nýja þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og tætt hana snyrtilega í sig í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi. Undir lok ræðu sinnar fékk hann svo þingheim allan til að skella upp úr, sem er vel gert við jafn formlegar kringumstæður.

Bergþór, sem er gamall sjálfstæðismaður, fyrrverandi aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar ráðherra og augljóst foringjaefni flokksins í Norðvesturkjördæmi, kann að spila á taugar borgaralega sinnaðs fólks sem nagar á sér handarbökin þessi misserin yfir stefnu ríkisstjórnarinnar og stefnuleysi.

„Ég ætla að nota mína ræðu til þess að reyna að draga saman hvað þau ætla sér að gera, hvað þau ætla að gera af sér næsta árið, ríkisstjórnarflokkarnir, því að þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar liggur nú fyrir. Það er nú ýmislegt kómískt sem þar er en annað alvarlegt. Ég ætla að fara yfir þetta svona dálítið af handahófi.

Byrjum á forsætisráðherra, sem hefur nú lagt fram þingmálaskrána fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar. Þar er efst á blaði að það á að stofna sérstaka mannréttindastofnun Íslands svona til að tryggja að báknið vaxi enn frekar. Ætli þær séu ekki einar fjórar, fimm stofnanirnar sem gætu tekið við þeim verkefnum sem þarna á að koma fyrir? Og enn skal höggvið í sama knérunn hvað varðar ásælni ríkisins í lönd og hlunnindi bænda og landeigenda og bæta við í vopnabúr óbyggðanefndar með breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda í stað þess að hætta þessari ásælni sem hefur viðgengist síðan lögin voru upphaflega samþykkt árið 1998. Fyrsti hringurinn er að klárast núna. En hvað gerði þessi sama ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili? Hún ákvað að fara annan hring, sækja meira land frá bændum og landeigendum.

Nú að málefnum fjármálaráðherra. Enn poppar upp frumvarp fjármálaráðherra um þjóðarsjóð, en nær væri að nýta það svigrúm sem er til staðar til niðurgreiðslu skulda enda uppsafnaður árangur ríkisstjórnarinnar í skuldasöfnun hreinlega ævintýralegur.

Er markmiðið að lenda enn og aftur upp á skeri?

Dómsmálaráðherra ætlar sér að gera aðra atlögu að því að sameina alla héraðsdóma landsins í einn með kontór í Reykjavík. Það er eflaust gert með markmið ríkisstjórnarinnar um aukna miðstýringu að leiðarljósi. Úr ranni dómsmálaráðherra kemur nokkuð á óvart að ekki sé ætlunin að leggja fram frumvarp til laga um lokuð búsetuúrræði fyrr en á næsta ári, enda, að því er virðist til þess að gera einfalda innleiðingu á ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði Schengen-ríkjanna.

Virðulegur forseti. Félags- og vinnumarkaðsráðherra ætlar að bíða fram yfir áramót með að leggja fram frumvarp um störf ríkissáttasemjara. Hvers vegna? Það blasir við öllum nauðsyn þess að staða ríkissáttasemjara verði tryggð; samningar að losna, eins og við þekkjum öll. Af hverju að bíða með þetta? Er það sérstakt markmið ríkisstjórnarinnar að lenda uppi á skeri í þessum málum enn og aftur?

Heilbrigðisráðherra virðist ætla sér að gera aðra tilraun til að innleiða nýja heildarlöggjöf í sóttvarnamálum og það áður en heildstæð úttekt hefur farið fram á áhrifum ákvarðana stjórnvalda í gegnum Covid-faraldurinn. Það er fráleit flýtiafgreiðsla.

Innviðaráðherra ætlar sér í annarri tilraun að ná því fram að veitt verði undanþága frá skipulags- og byggingarlöggjöf til að auðvelda stjórnvöldum að nýta atvinnuhúsnæði undir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Og talandi um húsnæðismarkaðinn, þeir sem halda að staðan á húsnæðismarkaði sé slæm núna, bíðið þið bara, hún á því miður eftir að versna umtalsvert. Staðan nú er sú að það er nákvæmlega jafn líklegt að áform stjórnvalda um uppbyggingu húsnæðis eru jafn líkleg til þess að nást þetta árið og stefnumál Framsóknarflokksins um fíkniefnalaust Íslands árið 2000. Það er bara jafn líklegt að bæði þessi markmið náist — eða annað þeirra.

Áform matvælaráðherra um heildarendurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar geta varla orðið til annars en að setja þingstörf á hliðina þegar kemur að framlagningu þeirra. Og svo mætti lengi telja.

Ég ætla að leyfa mér að hrósa umhverfisráðherra, en afleitt frumvarp ráðherrans frá síðasta þingi um bann við rannsóknum í tengslum við olíu- og gasvinnslu er hvergi að finna í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Þó að ólíklegt sé að ríkisstjórnin styðji við skynsamlega nýtingu auðlinda í þessu samhengi er þó til bóta að stjórnin leggi ekki beinlínis til bann við rannsóknum.

Utanríkisráðherra þrammar svo aftur upp með bókun 35 á meðan fulltrúar í utanríkismálanefnd hafa, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, ekki fengið tækifæri til að glöggva sig á sjónarmiðum stjórnvalda á liðnu kjörtímabili þegar utanríkisráðherra þess tíma taldi enga ástæðu til að gera þá kúvendingu sem nú er ætluð í málinu. Hvers vegna fá þingmenn ekki að glöggva sig á rökstuðningi Sjálfstæðisflokksins á liðnu kjörtímabili í þessu máli?

Við Sjálfstæðismenn og fullveldissinna um landið allt vil ég segja að það er tekið við nýskráningum í Miðflokkinn allan sólarhringinn á heimasíðu flokksins, midflokkurinn.is. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegur forseti. Það verður auðvitað líka að vera gaman hér í þinginu. Að lokinni þessari yfirferð minni um ævintýri þingmálaskrár ríkisstjórnarinnar er eiginlega ekki annað hægt en að benda á skemmtiefni sem utanríkisráðherra ætlar sér að leggja fram hér í þinginu í nóvember, en þá áformar ráðherrann að leggja fram tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem ekki hefur enn verið tekin. Hvaða brandari er þetta? En það verður einhver að taka sér að skemmta okkur hér í þinginu.

Góðir landsmenn. Það er fjörugur þingvetur fram undan. Það er ekki víst að allt sem hér gerist verði til heilla fyrir land og þjóð, en við ykkur segi ég bara: Þið fylgist með. Góða skemmtun.“